Lífeyrissjóður sjómanna

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 23:27:05 (6970)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef fylgst af athygli með þeim umræðum sem hafa farið fram að frumkvæði hv. 14. þm. Reykv. um Lífeyrissjóð sjómanna. Ég held að málið liggi með þeim hætti að það væri náttúrlega langeðlilegast að salta þetta mál og vera ekki að rembast við að reyna að koma því frekar í gegnum þingið á þessum stutta tíma sem eftir er. En ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs er sú að hv. 16. þm. Reykv. gat mín vinsamlega í ræðu sinni eða hitt þó heldur hér fyrr í kvöld.
    Þannig háttar til að á árinu 1982 var flutt frv. til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Efni þess var það að sjómenn skyldu geta tekið lífeyri við 60 ára aldur úr þeim sjóði eins og úr almannatrygginum. Það var þáv. hæstv. fjmrh. sem flutti frv., Ragnar Arnalds, sem einnig er í þessum sal í dag. Þetta frv. sem hæstv. þáv. fjmrh. flutti var flutt að beiðni stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna á þeim tíma líka. Það var ekki vegna þess að fyrirheit lægi fyrir um það efni af hálfu þáv. ríkisstjórnar. Það lá ekki fyrir. Hins vegar var rækilega farið yfir það mál af þáv. ríkisstjórn af sérstakri nefnd sem skipuð var og hún komst að þeirri niðurstöðu að ef koma ætti sérstaklega til móts við Lífeyrissjóð sjómanna þá yrði að gera það við fleiri sjóði. Þar væri um að ræða kostnað upp á gífurlega háar upphæðir.
    Nefndarálit þessarar nefndar lá fyrir vorið 1983 og var tekið til meðferðar af þeim fjmrh. sem þá tók við vorið 1983 sem var Albert Guðmundsson. Hann fjallaði síðan lengi um það mál að sögn og nefndin skilaði áliti enn um það að ríkið yrði að leggja til peninga og ríkið neitaði að leggja til þá peninga. Það er auðvitað að snúa höfðinu algjörlega við á þessum hlutum ef hv. þm. ætlar sér að fara að kenna mér og hv. þm. Ragnari Arnalds um þennan vanda. Við vitum auðvitað að hann er til. Aðalatriðið er í þessu máli að núv. ríkisstjórn hefur gert lögin um 60 ára lífeyrisaldur sjómanna að engu. Það er afrek sem hv. 16. þm. Reykv. er með á bakinu og ég skil vel að hann skuli kveinka sér undan því.