Vernd barna og ungmenna

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:03:08 (6975)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ætli besta svarið við andsvari þingmannsins sé ekki í umsögn Dómarafélags Íslands. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Stjórnin getur ekki sætt sig við þá röksemdafærslu sem á að leiða til þessarar niðurstöðu nefndarinnar og fram kemur á bls. 18. Þannig segir m.a. að dómstólameðferð þyki fylgja ýmsir ókostir og hætta sé á að sú leið yrði ekki nægilega skilvirk. Sú meðferð sé einnig dýr og seinleg.`` Dómarafélagið segir einnig: ,,Stjórn Dómarafélags Íslands fellst ekki á þetta sjónarmið nefndarinnar og telur það ekki eiga að ráða því hvort skjóta megi ákvörðunum um þvingunaraðgerðir til efnislegrar meðferðar dómstóla ef sú leið þykir á annað borð æskileg. Þá telur stjórn Dómarafélags Íslands að dómari hafi almennt nægilega þekkingu til meðferðar slíkra mála svo sem annarra mála er fyrir dómstóla eru lögð enda tryggja sérfróðir meðdómendur þá sérfræðiþekkingu sem dómara vanhagar um í einstökum málum. Skoðun nefndarinnar hvað þetta atriði varðar er því mótmælt.
    Í áliti nefndarinnar segir: ,,Þótt ætla megi að dómstólaleið tryggi rétt foreldra best telur nefndin ekki ljóst að hið sama gildi um öryggi og velferð barnsins þegar mál eru rekin fyrir dómstólum. Í barnavernd felst stuðingur samfélagsins við börn. Ef grípa þarf til úrskurðar er eðli hans og tilgangur að tryggja velferð barnsins og öryggi en alls ekki sá að refsa foreldrum . . . Í frv. er reynt að bregðast við þessari hættu með skýrum málsmeðferðarákvæðum og sterkri stöðu barnaverndarráðs sem áfrýjunaraðila.``
    Stjórn Dómarafélags Íslands telur þennan kafla út í hött enda er þar látið að því liggja að dómstólar fari ekki að lögum á þessu einstaka sviði. Telur stjórnin að fella eigi þennan kafla úr frv.``, segir í umsögn Dómarafélagsins.