Vernd barna og ungmenna

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:04:47 (6976)


     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég lofaði forseta að tala ekki langt mál því mér skilst að það eigi að taka þetta mál af dagskrá og taka það upp síðar. Það minnti mig á það að þegar þetta mál var til 1. umr. var það aðeins rætt hér í tvo tíma. Að vísu var það mjög góð umfjöllun en aðeins í tvo tíma. Dagana þar á undan hafði í heila tvo daga verið rætt um veiðar á villtum fuglum og dýrum. Þar töluðu hv. þm., karlmenn aðallega, sig algjörlega hása og höfðu áhyggjur af ísbjörnum sérstaklega og ánamöðkum. En nú er til umfjöllunar vernd barna og ungmenna og þá eru miklu færri og miklu minni spenna í umræðunum. Samt kemur þetta okkur öllum við og mörg íslensk börn hafa það því miður ekki allt of gott.
    Virðulegi forseti. Löggjöf þessi fjallar um mjög vandmeðfarið svið og verður seint svo að allir séu fullkomlega sáttir. Ég harma það að félmn. hafi ekki getað gefið sér meiri tíma í nákvæmnisvinnu við málið en við höfum aðeins haft það til umræðu á örfáum fundum. Ég tel þó að það séu ótvíræðir kostir við frv. og helstu kostirnir séu þeir sem fyrr hafa verið nefndir, að það er verið að stækka umdæmi barnaverndarnefnda almennt. Barnaverndarnefndir í dag eru yfir 200 talsins og mjög margar eru nánast vanhæfar. Bæði er það að þær hafa ekki fjármagn til að reka sig og ekki þá sérþekkingu sem til þarf. Í frv. er réttarstaða barna betur tryggð í mörgum greinum. Í frv. hefur verið leitast við að setja skýrari ákvæði um skyldur barnaverndaryfirvalda yfirleitt. Eins og fram hefur komið í máli hv. formanns félmn. er að mestu leyti samkomulag um þetta mál í nefndinni. Við stöndum saman að brtt. sem formaður kynnti. Ég vil samt taka undir með síðasta ræðumanni sem hér talaði og var með vissar efasemdir í sambandi við úrskurðarmál og dómstólaleiðina. Þessi mál voru alls ekki nægilega rædd í félmn. að mínu mati. Þrátt fyrir það höfum við ákveðið að standa að frv. vegna þess að það er ýmislegt í því sem mun koma börnum til góða.