Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:41:19 (6986)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Herra forseti. Ég vildi aðeins byrja á því að leiðrétta síðasta ræðumann. Sjómannasambandið sendi bréf, ekki til þess að mótmæla því að verið væri að sporna við þessari skiptingu, heldur þeirri brtt. sem hefur komið fram og gerir ráð fyrir að farið verði út í hlutaskipti. Því er Sjómannasambandið að mótmæla.
    Hitt er annað mál að það kemur mér spánskt fyrir sjónir og kannski er þó í bland ánægja yfir því að þingheimur vill nú fara að blanda sér í hin einstöku og sérstöku mál vítt og breitt í þjóðfélaginu.
    Í annan stað er verið að kasta út úr hinu háa Alþingi ýmsum ákvæðum og lögum sem eðlilegt væri að Alþingi hefði tök á og í hinn stað er verið að taka inn mál, eins og t.d. mál varðandi greiðslumiðlunarsjóðinn. Hvað ætla menn að gera þegar 46 stéttarfélög innan Sjómannasambandsins senda hingað erindi? Ætlar þingheimur að afgreiða það með sama hætti, bæta við sjómannafélögum um allt land og skipta niður þessum peningum? Ætlar þingheimur og hv. alþingismenn að taka það að sér að gerast einhverjir skömmtunarstjórar í þessu máli? Ef þessi ágætu stéttarfélög geta ekki komið sér saman um þetta þá er ekki

nema um tvennt að gera og réttara sagt er aðeins um eitt að gera og það er að afnema þetta hreint og beint.
    Ég vara alvarlega við því og mér finnst, eins og ég sagði áðan, það vera orðið dálítið merkilegt þegar Alþingi ætlar að fara út í slíka starfsemi sem þessa, að skammta 50--60 sjómannafélögum út um allt land og eyrnamerkja þessar upphæðir í staðinn fyrir að láta samtök sjómanna sjá um þetta og ætlast til þess af þeim að þeir skipti þessu sín á milli, eins og þeir hafa gert hingað til.