Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:43:20 (6987)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil lítillega blanda mér inn í þessa umræðu sem orðin dálítið merkileg. Efnislega gengur málið út á það að Farmanna- og fiskimannasambandið er að ganga í sundur og eru vélstjórar þar að fara út og stofna sín eigin samtök. Farmanna- og fiskimannasambandið hefur fengið hlut úr greiðslumiðlunarsjóði sem ég hygg að sé ákvarðaður samkvæmt lögum og annar hlutur úr sama sjóði renni til Sjómannasambands Íslands. Þannig að ef ég kann þessa hluti rétt þá er það ákvarðað nú þegar í lögum hvernig skiptingin er.
    Hér hefur verið sagt að menn ættu að semja um þetta sín í milli. Ég er með bréf dags. 18. febr. frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands til Vélstjórafélagsins þar sem einmitt er jallað um samningaumleitanir á milli þessara aðila og vil ég lesa úr þessu bréfi eina setningu sem gefur augljóslega upp stöðuna í þessum samningaviðræðum og hún er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Eins og ég hef margoft sagt við þig í viðræðum sem við höfum átt saman um fé af greiðslumiðlunarreikningi fellst ég fyrir hönd Farmanna- og fiskimannasambands Íslands ekki á uppskipti á þeim lögbundna rétti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands né öðrum eignum sambandsins.``
    Það er alveg skýrt að Farmanna- og fiskimannasambandið fellst ekki á neinar breytingar eða að láta neitt af hendi til Vélstjórafélagsins.
    Mér sýnist málið vera í þannig stöðu að löggjafinn verði að taka á því og eins eru reyndar fleiri þeirrar skoðunar því fram hefur komið frv. sem sjútvn. hefur afgreitt frá sér og ef ég man rétt þá leggur hún til að það verði samþykkt, þannig að mér sýnist einboðið að menn fylki sér að baki sjútvn. í þessu máli.