Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:50:26 (6990)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :

    Herra forseti. Hafi það hvarflað að mér að það væri svartfuglavilla þá er ég nokkuð viss í minni sök núna að svo er því að hv. 3. þm. Suðurl. ræddi um það í bland að ráðherra setti lög eða reglugerðir og var ekki á hreinu hvort ráðið hann teldi nauðsynlegra í stöðu málsins. Auðvitað liggur ljóst fyrir að Alþingi setti þessi lög og það breytir enginn þessum lögum nema Alþingi. Þess vegna getur enginn annar blandað sér í málið. Að breyta lögum, sem Alþingi hefur sett, er ekki að blanda sér í neitt mál, það er í reynd aðeins Alþingi eitt sem hefur aðstöðu til að veita það rými sem hæstv. sjútvrh. er nauðsyn svo hann geti ,,sjatlað`` þetta mál. Þannig standa leikar. Það er ekki verið að kveða upp neinn salómonsdóm, það er verið að fela sjútvrh. fullt umboð í málinu. Lengra getur Alþingi ekki gengið. Það á tvo kosti. Annars vegar að nema lögin úr gildi algjörlega, eins og hér hefur komið fram, eða fela hæstv. sjútvrh. fullt umboð í málinu. Og vegna þess að þingheimur ber það traust til hæstv. sjútvrh. að hann muni af réttsýni taka á þessu máli þá velur þingið þann kostinn, vænti ég, að fela honum umboð til þess að vinna að lausn deilunnar.