Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:20:42 (7003)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú að verða svolítið sérkennileg umræða. Ég stóð satt að segja í þeirri meiningu að gert hefði verið samkomulag um málsmeðferð og vissi ekki betur en svo væri og raunar er reynsla mín sú í áranna rás að hafi ég gert eða átt aðild að samkomulagi, sem ég átti reyndar ekki núna við hv. þm. Svavar Gestsson, þá hefur það ævinlega staðið eins og stafur á bók. Ég geri mér hins vegar ljóst að nú kunna þau atvik að hafa gerst sem hann ekki ræður við. Mér sýnist að það sé kannski ekki alveg í fyrsta skiptið sem formaður Alþb. kemur svolítið þvert á málin. En ég endurtek að í hvert einasta skipti í nokkuð langri þingsetu sem ég hef gert samkomulag við hv. þm. Svavar Gestsson þá hefur það staðið eins og stafur á bók.
    Það er líka sérkennilegt, virðulegi forseti, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skuli hafa notað ræðutíma sinn núna til heiftarlegra árása á Jón Sigurðsson iðnrh. sem er fjarstaddur, jafnframt því sem hann hefur látið þess getið að ég, sem nú er starfandi iðnrh., viti harla lítið um þessi mál. Ég ætla ekki að ræða

þau mál lengi við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson en það var líka fróðlegt að fylgjast með ræðu hans um hinn breska iðnrh., Michael Heseltine, og afrek hans, en rétt er að hafa það í huga að sá ágæti maður hefur ekki verið nema mánuð eða varla það í starfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra í bresku ríkisstjórninni og hefur ekki unnið mikil afrek á þeim vettvangi enn þá. Hann var hins vegar umhverfisráðherra áður í ríkisstjórn Margrétar Thatcher og gerði þar ýmislegt af hinu góða, m.a. sagði hann margt viturlegt um samskipti iðnaðarins og umhverfisverndarmanna.
    Það var líka fróðlegt að fylgjast með og hlusta á þórðargleði hv. þm. vegna þess hvernig hefði tekist til um álver og minnast þess þá í leiðinni hversu langur tími fór eitt sinn í það í stjórnarmyndunarviðræðum er Alþb. átti þá ósk heitasta að tekið væri sérstaklega fram að ekki mætti byggja álver á Íslandi. Það var nú sú framsýni sem þá var ráðandi í þeim flokki.