Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:42:36 (7010)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig rétt og ástæða til að rifja það upp að það var nokkur ágreiningur um aðildina að EFTA á sínum tíma. En hann stafaði fyrst og fremst af því að menn sáu það fyrir sér að þar gæti orðið um að ræða samruna við Evrópubandalagið á tiltölulega stuttum tíma. Að sumu leyti gætu þeir hlutir verið að gerast núna sem menn óttuðust að gætu gerst þá. Hitt er rétt að benda á að EFTA breyttist fljótlega í þægilegt smáríkjabandalag þar sem Ísland átti ágætlega heima að mínu mati. Og það er líka rétt að rifja það upp að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar árin 1978 og 1979 breytti í raun og veru aðlögunarskilmálunum að Fríverslunarbandalaginu verulega frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. Því var mjög vel tekið hjá aðildarríkjum EFTA.
    Til fróðleiks vil ég svo rifja það upp við hæstv. umhvrh. að það voru líklega þeir vondu menn sem alltaf vilja höft og skammtanir og þess háttar eða einhverjir úr þeim hópi sem ákváðu að leyfa frjálsan innflutning á sælgæti sem ég sé að núv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. eru einlægt að þakka Alþfl. Það skyldi þó ekki vera þannig að það hafi verið sá sem hér stendur sem ákvað innflutning á sælgæti á sínum tíma og því var nokkuð vel tekið og sælgætisiðnaðurinn hefur spjarað sig?
    Að lokum þá þakka ég fyrir þessar umræður sem hafa verið gagnlegar þó því miður þá sé iðnrh. fjarverandi og það er augljóst mál að það verður að halda þessum umræðum áfram á næsta þingi. Leitin að iðnaðarstefnunni hjá ríkisstjórninni bar að vísu ekki árangur en það verður þá að skapa þjóðfélagslegar og pólitískar forsendur fyrir henni annars staðar.