Flugmálaáætlun 1992--1995

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 03:22:20 (7017)

     Frsm. samgn. (Árni M. Mathiesen) :
    Herra forseti. Örstutt svör til hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann spurði um tvo liði í brtt. Annars vegar um lið 2.8 og hins vegar lið 2.9. Liður 2.8 heitir Stjórnunarkostnaður við flugmálaáætlun og er jafnframt gerð grein fyrir þeim lið í sundurliðuninni sem liður 4.24. Þess var getið í framsögu brtt. við fyrri hluta umræðunnar. Hins vegar er það liður 2.9, Óráðstafað vegna endurmats á forsendum og aðstæðum. Þar er um að ræða þær upphæðir sem ekki er skipt í brtt. fyrir árin 1994 og 1995. Í frekari sundurliðun koma þær saman undir lið 4.25 ásamt þá lið 2.7, Til leiðréttinga og brýnna verkefna, úr öðrum hluta tillögunnar.
    Að lokum vil ég fullvissa hv. þm. Stefán Guðmundsson um að þessi umræða um flugmál, skipulag flugmála og áætlanagerð mun verða tekin fljótt upp aftur og vonandi verður hún ítarlegri og á þann hátt að þingmaðurinn geti vel við unað.