Skattskylda innlánsstofnana

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 03:42:39 (7021)

     Guðni Ágústsson :

    Hæstv. forseti. Nóttin er nú að byrja að víkja fyrir nýjum degi og menn verða þeim mun meir undrandi á vinnubrögðum þeirrar ríkisstjórnar sem þeir sitja uppi með í þessu landi. Ég hafði ætlað mér að halda langa og ítarlega ræðu í þessu máli til að vara ríkisstjórnina við. Það er hin málefnalega umræða ein sem kannski getur komið í veg fyrir slysin. En ég vil ekki fremur en margir aðrir brjóta einhvern sáttmála um að þessari umræðu ljúki. Þannig að ég boða það að fara fremur í þau mál og þær upplýsingar sem ég hef í þessu máli við 3. umr. og þá að rekja þær hættur sem í málinu liggja.
    Auðvitað er það svo að íslenska þjóðin er smátt og smátt að vakna upp við þann vonda draum að ríkisstjórnin í þessu landi er sýknt og heilagt að leggja drápsklyfjar á atvinnulífið. Það getur vel verið að hæstv. forsrh. sofi vært undir slíkri ræðu þegar hann er minntur á þau svik, þær brigður sem stefna Sjálfstfl. er að valda í þessu landi. Hvernig hann hefur vikið frá henni á öllum sviðum og leggur nú þyngri drápsklyfjar á atvinnulífið sem mun skapa verulegt atvinnuleysi. Starfsskilyrði atvinnugreinanna er að verða með þeim hætti að þær fá ekki risið undir. Hér hafa menn þó verið það heppnir að hafa fundið sjóði úr fortíðinni sem þeir geta nú opnað til björgunarstarfa. En eins og fram hefur komið eru farnar leiðir sem örugglega munu þyngja mjög á atvinnulífinu. Margir sjóðir verða að bregðast við þessu frv. ef að lögum verður með því að hækka sína vexti. Ábyrgðarmenn sjóðanna fullyrða það að þeir muni ekki sitja aðgerðarlausir, þeir muni grípa til aðgerða til þess að verja stöðu sjóðanna og þá verður bagginn fluttur yfir á atvinnulífið.
    Það er nú svo með þessa ríkisstjórn að vinnubrögð hennar minna mig æ meira á bræðurna frá Bakka í Svarfaðardal. Þeir voru ekki félegir við hann föður sinn, þeir piltar, og þegar hann kallaði kútinn þá önsuðu þeir ekki gamla manninum. Nú er þjóðin að kalla úr öllum áttum. Atvinnulífið biður um grið fyrir skattagleði ríkisstjórnarinnar en ekkert svar heyrist. Þeir halda áfram sínu mulningsstarfi. Það er eins og þeir séu að störfum fyrir svona kannski eina starfsstétt, innflutningsaðalinn á Íslandi, heildsalana. Og í mínum huga þá er atvinnulífið í hlutverki Brúnku gömlu. Þegar vonda veðrið geisaði þá hlóðu þeir að henni grjóti og þóttust vera að verja hana. ( Gripið fram í: Merina?) Hana Brúnku gömlu. Hefur hv. þm. ekki lesið söguna um bræðurna frá Bakka sem virðast nú vera endurrisnir og farnir að stjórna þjóðfélaginu? En þeir hlóðu það vel að Brúnku gömlu að hún lagðist undir þunganum og dó. Mér sýnist að hér sé verið að fara svipað með íslenskt atvinnulíf ef ekki tekst að stöðva þessi mál. Þá muni það gerast að margt stoppar.
    Ég er í engum vafa um að þetta hefur alvarlegar afleiðingar fyrir Stofnlánadeildina þó ég skuli játa að þær brtt. sem meiri hluti nefndarinnar flytur hafi linað að nokkru ætlunarverkið. En ég hygg að það sé miklu alvarlegra með Fiskveiðasjóð. Og ég bara trúi því ekki að það verði síðasta kveðja Alþingis Íslendinga að leggja enn á ný við lok þingsins í ár þungar byrðar á íslenskan sjávarútveg. Menn eru búnir að gera kjarasamning í landinu og þá er ekki hikað við að ganga til þess verks að leggja byrðar á þessa sjóði sem munu leiða til þess að vextir úti í atvinnulífinu munu hækka. Ég hygg að það muni um það ef Fiskveiðasjóður Íslands verður að hækka vexti sína um 2% eins og fram kemur að þeir telja sig þurfa ef þetta frv. verður að lögum.
    En eins og ég sagði þá vil ég ekki bregðast fyrst eitthvert samkomulag náðist um störfin í nótt. En ég boða það hiklaust að í þessu máli hljótum við að tala mikið við hæstv. ráðherra því að ef frv. verður að lögum hefur það alvarlegri afleiðingar í för með sér en þeir gera sér grein fyrir. Og það er mikilvægt að heyra varnarræður þeirra. Hvað meina þessir menn? Þetta verðum við að fá svar við við 3. umr. þó að ég kannski vænti þess að þeir átti sig á þessari nóttu og láti málið liggja á þessu þingi.