EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 10:49:01 (7027)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Í tilefni af þessum orðum hv. 4. þm. Austurl. og í framhaldi af þeim er kannski rétt að fara nokkrum orðum um þessi litlu kver sem lögð hafa verið á borð þingmanna. Þau eru í fyrsta lagi staðfestingarfrumvarpið um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Í því kveri er meginmál samningsins ásamt greinargerð og svokallaðri bókun 1, ásamt nokkrum viðaukum og þá sérstaklega viðaukanum um þann þátt sjávarútvegsmálanna sem lýtur að varanlegum fyrirvörum Íslendinga.
    Í annan stað er þarna að finna sjálfan samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í fimm bindum. Í fyrsta bindinu er meginmál, yfirlýsingar og samþykktir. Í öðru bindinu er að finna bókanir sem fylgja samningnum, bókun 1--4, þar með talin bókun um meðhöndlun á unnum landbúnaðarafurðum. Í þriðja bindinu eru bókanir 5--49, í fjórða bindinu eru viðaukar I--VI og í fimmta bindinu eru viðaukar VII--XXII. Þriðja ritið er síðan fylgisamningar. Það eru þeir samningar sem EFTA-ríkin hafa gert með sér innbyrðis um framkvæmd samningsins og fjalla í meginmáli um þær stofnanir nýjar sem ríkin hafa samþykkt að setja á fót, þ.e. eftirlitsstofnun, dómstól og fastanefnd. Þar er einnig að finna sérstakan tvíhliða samnings Íslands og Evrópubandalagsins um landbúnaðarmál, þ.e. sérstaklega um þær vörur sem varða grænmeti og blóm.
    Fjórði þáttur þessa máls er síðan í framhaldi af samkomulagi sem tekist hefur milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þinglega meðferð málsins. Þá liggur fyrir --- ég sá það nú að vísu ekki á mínu borði en það mun liggja fyrir hér í dag --- yfirlit yfir fyrirhugaðar lagabreytingar í kjölfar samningsins. Þar eru talin upp, samkvæmt framlögðum greinargerðum ráðuneyta, þau frumvörp sem leggja þarf fram, rannsaka og afgreiða á Alþingi Íslendinga í kjölfar samningsins, þ.e. fyrir árslok, þau frv. sem þarf að afgreiða í tengslum við samninginn þannig að hann geti tekið gildi fyrir áramót. Þá eru ekki að fullu taldar allar lagabreytingar, þ.e. ekki þær sem nauðsynlegar eru vegna framlengds aðlögunartíma Íslendinga sem er í

nokkrum tilvikum allt fram til ársins 1996--1997.
    Loks er þingfest hér skýrsla utanrrh. um erindaskipti Íslands og Evrópubandalagsins um gagnkvæmar veiðiheimildir.
    Þetta er í stórum dráttum það sem hér er lagt fram og er það gert til þess að standa við og efna það samkomulag sem tókst milli stjórnarflokkanna og þingflokka stjórnarandstöðunnar um það hvernig þessi mál skyldu fram lögð fyrir lok vorþings. Í því samkomulagi var einnig ráð fyrir því gert að þessi mál skyldu fara án umræðu til viðkomandi fastanefnda þingsins, þ.e. annars vegar til utanrmn. og hins vegar til einstakra fastanefnda, þannig að þingið geti nýtt þann tíma sem fram undan er til að fara ofan í kjölinn á þessum litlu kverum.
    Að lokum, virðulegi forseti, tek ég fegins hendi þeirri ábendingu hv. 4. þm. Austurl. að rétt væri að setja þetta efni á snældur þannig að menn gætu haft þetta við eyru sér þegar þeir aka um vort fagra land og ef ég má skilja ábendingu hv. þm. á þann veg að hann sé að bjóða sig fram til þess að lesa þetta á böndin í nokkrum ,,hjörlum`` þá yrði því tekið fegins hendi.