EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:09:05 (7031)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 8. þm. Reykn. er rétt að upplýsa að þeim spurningum sem hér hafa verið bornar upp um annars vegar birtingu á tilvísunum í lög og reglur Evrópubandalagsins hefur þegar verið svarað. Þeim var svarað í viðræðum fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu þegar menn ræddu um samkomulagið um þinglega meðferð á þessu mikla máli, þannig að það stendur ekkert á því svari. ( ÓRG: Hvert var svarið?) Svarið er m.a. það að því er varðar regluverk Evrópubandalagsins, sem menn kalla svo, þá hefur það legið á borðum þingmanna töluvert á annað ár þótt fáir kunni að hafa lesið það. Við kölluðum það bláskinnu, og það er komið á annað ár frá því að þær upplýsingar í stórum dráttum lágu á borðum þingmanna.
    Að því er varðar kröfur um að hér verði birtar á íslensku dómsniðurstöður Evrópudómstólsins á árinu 1960 til dagsins í dag, þá stendur það einfaldlega ekki til enda er sú krafa engum meginrökum studd og ósanngjörn. Ég nefni sem dæmi að einstakar aðildarþjóðir Evrópubandalagsins hafa ekki haft fyrir því að láta þýða þær dómsniðurstöður á sínar tungur, svo ég nefni Dani sem dæmi.
    Ekki ber svo að skilja þetta svar að það sé verið að leyna nokkrum sköpuðum hlut. Í grg. með frv. er vísað til allra þeirra helstu dómsniðurstaða frá fyrri tíð sem varða þennan afmarkaða þátt laga og reglna Evrópubandalagsins sem lagður er til grundvallar Evrópska efnahagssvæðinu. Í annan stað er hv. þingmönnum vísað að kynna sér fræðilega umfjöllun um það mál. Það vill svo til að til er handhægt uppsláttarrit á íslensku sem víkur mjög að þessum þáttum, fjallar um alla helstu dóma sem máli skipta. Þar nefni ég til rit Stefáns Más Stefánssonar prófessors um Evrópuréttinn.
    Í þriðja lagi er hv. þm. sem girnast upplýsingar um þetta, eins og t.d. hv. 8. þm. Reykn., bent á að til eru handhægar handbækur um þetta á öllum tungumálum þannig að upplýsingaefnin eru mörg. En hins vegar er það einfalt svar að óskir um að fá þessar dómsniðurstöður áratugi aftur í tímann þýddar yfir á íslensku eru ekki í áformum íslenskra stjórnvalda.
    Og að því er varðar greinargerð um erindaskiptin um tvíhliða samninginn sem hv. þm. var að minnast á og taldi vera aðalatriði þessa samnings, þá var hann svo óheppinn að það var rétt í þeirri sömu andrá verið að dreifa þeirri skýrslu á borð þingmanna. Samningnum er ekki lokið. Í þessari viku standa yfir viðræðufundir milli aðila um þann samning. Hitt er auðvitað fjarstæða að hann sé meginmál þessa samnings. Þetta er tvíhliða samningur milli Íslands og Evrópubandalagsins og kemur þessum samningi út af fyrir sig ekki við. Hann er í framhaldi af samningsskuldbindingum okkar um fríverslunarsamninginn milli Íslands og Evrópubandalagsins frá árinu 1972 sem formlega var virk 1977 og var eitt af meiri háttar og ágætum verkum hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, en hann er ekki partur af þessum samningi eins og öllum öðrum hv. þm. er kunnugt.