EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:27:00 (7034)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er ekki af neinni meinbægni sem verið er að ræða þetta mál við hæstv. utanrrh. Hér er um algjör undirstöðuatriði að ræða varðandi þennan samning sem hluti af er kominn á borð hv. þm. En það vantar stóra þætti sem snerta þennan samning, þeir eru ókomnir til þingsins. Ég er að biðja hæstv. ráðherra um að upplýsa okkur um það hvenær þeir koma og hversu miklir eru þeir að umfangi. Ráðherrann hefur ekki svarað þessu. Hann hefur ekki gert það. Það sem við höfum fengið í bókunum á borð okkar er útfærsla í nýju formi á bláu bindunum tveimur, próförkinni frá 9. mars sl. og svo ýmsir þættir aðrir sem snerta EFTA fyrir utan frv. og skýringar með því. Þetta eru um 1.200 blaðsíður eins og þetta lá fyrir okkur í bindunum tveimur. Að vísu afar ruglingslega en aðrir bindandi textar upp á um 7.000 blaðsíður og þá í öðru broti og samþjappaðri en liggur fyrir hérna eru ókomnir. Efni viðaukanna. Hvaða svör fáum við hér? Jú, það er vitnað í bók, nokkuð þykka á mælikvarða þingskjala, kölluð bláskinna --- ég hugsa ég eigi eitthvað í því heiti sem hæstv. utanrrh. tók upp. Það var rit upp á að mig minnir 1.038 blaðsíður sem var dreift hér. Ágrip af nokkrum reglum Evrópubandalagsins á einstökum sviðum samningsins eins og það lá fyrir á þeim tíma og ég segi ágrip. Það er langt frá því að vera tæmandi og hvað þá að það væri efni þessara reglna sem hafa lagagildi samkvæmt samningnum ef ef staðfestur yrði. Lítið á 119. gr. í samningnum í fyrsta hluta af fimm sem hefur verið dreift. Hvað stendur í 119 gr.? Það stendur: ,,Viðaukar, svo og gerðir sem vísað er til í þeim og aðlagaðar eru vegna samnings þessa, skulu auk bókana vera óaðskiljanlegur hluti samningsins.``
    Eiga menn þá að búa við eitthvert hrafl frá síðasta ári sem lagt var fyrir þingið, ekki sem þingskjal, ef ég man rétt, heldur dreift á vegum utanrrn.? Hæstv. forseti leiðréttir mig ef það er misminni. Þó tókum við það fyrir í a.m.k. tveimur þingnefndum sem ég var formaður í og fjölluðum um þá þætti sem þar voru varðandi iðnaðarmál og samgöngumál. Ég veit ekki hvað var unnið að því í öðrum nefndum þingsins, en svona liggur málið fyrir. Þessa 7.000 blaðsíðna texta vantar, viðaukana sem eiga að vera óaðskiljanlegur hluti samningsins. Hvar eru þessir viðaukar, hæstv. utanrrh.? Hvenær koma þeir? Er eitthvað óþýtt? Því hefur ekki verið svarað. Er þetta allt komið á íslenskt mál eða skortir enn á um þýðingar?
    Síðan kemur það sem snýr að 6. gr. samningsins, þ.e. dómsúrskurðirnir. Ég bið menn að lesa hvað 6. gr. segir: ,,Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa.``
    Eru menn svo hissa á því að verið sé að óska eftir því að þetta efni liggi fyrir á íslensku máli og aðgengilegt fyrir þingið? Við hlýðum á það að hæstv. ráðherra hafnar því að leggja þennan hluta málsins fyrir þingið og vísar í einhverjar bækur á erlendum textum eða einhverjar handbækur þar sem nefndir hafa verið einhverjir af þessum dómsúrskurðum.
    Er þetta viðunandi málsmeðferð? Ég segi nei. Þetta er með öllu óviðunandi og það er satt að segja óheyrilegt eftir að þessu áhugamáli hæstv. utanrrh. hefur seinkað um eitt og hálft ár frá upphaflegum tíma skuli þessi mál ekki lögð fyrir með öðrum og skilmerkari hætti en gert er við lok þessa þings. Ég mótmæli þessu og ég krefst þess að hæstv. ráðherra geri okkur hér grein fyrir því hvenær þess er að vænta sem ókomið er í aðgengilegu formi fyrir þingið á íslensku máli.