EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:30:05 (7036)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Veikur er nú málstaðurinn, hæstv. utanrrh., ef strax í upphafi þarf að fara að beita aðferðinni ,,vér einir vitum``. Hæstv. utanrrh. er velkomið að segja eins oft og hann vill á Alþingi að ég hafi ekkert vit á þessu máli. Guðvelkomið. Ef það verður temað í ræðum í ágúst að þeir sem koma með óþægilega fleti í málinu hafi ekkert vit á því verður þetta sérkennilegt þing í ágúst og september.
    Hæstv. utanrrh. sagði áðan að samningurinn milli Íslands og Evrópubandalagsins væri eitthvert barn Matthíasar Bjarnasonar en kæmi samningnum um Evrópskt efnahagssvæði ekkert við. Hæstv. utanrrh., hér er fyrsta heftið, meira að segja í fánalitunum og með skjaldarmerkinu á forsíðunni, sem ráðherra leggur fram hér í dag og ber heitið ,,Meginmál EES-samningsins``. Hvað stendur þar á blaðsíðu 157? Þar stendur að Evrópubandalagið lýsi því yfir að tvíhliða samningur um fiskveiðar milli Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands sé hluti af heildarniðurstöðu samningsins og grundvallarþáttur í samþykki þess á EES-samningnum. Grundvallarþáttur í samþykkt Evrópubandalagsins á EES-samningnum. Svo kemur hæstv. utanrrh. og segir: Það er fjarstæða að samningurinn um sjávarútvegsmálin sé einhver hluti af þessu máli, hann er afkvæmi Matthíasar Bjarnasonar.
    Virðulegi utanrrh. Ég veit að vísu að við vöktum lengi í nótt, en á þetta virkilega að vera svona sem kynna á málið í þinginu? Þetta stendur hér í fyrsta hefti á bls. 157 í Meginmáli EES-samningsins, hæstv. ráðherra. Eða er það þannig kannski að Evrópubandalagið hafi ekki heldur vit á EES-samningnum, hæstv. utanrrh.? Er það kannski þannig að bara hæstv. utanrrh. einn viti eitthvað um málið? En Evrópubandalagið hafi auðvitað misskilið málið og viti ekki neitt. Því ef ég hef rangt fyrir mér í þingsalnum í dag þá hefur Evrópubandalagið líka rangt fyrir sér og þá er þessi blaðsíða 157 í fyrsta hefti meginmáls samningsins vitleysa, hæstv. utanrrh. Hæstv. ráðherra á ekki að bjóða þinginu svona málflutning.
    Hæstv. ráðherra neitaði því áðan að ætla að leggja fyrir Alþingi Íslendinga ítarlega greinargerð um dómsúrskurði Evrópubandalagsins. Samt sem áður er í fyrsta kafla EES-samningsins, kaflanum sem ber heitið Markmið og meginreglur, 6. gr., sem segir að þessir úrskurðir dómstóls Evrópubandalagsins fái gildi æðra íslenskum lögum vegna þess að þeir verði ráðandi um túlkun EES-samningsins. Ekki afstaða Alþingis, heldur þessir úrskurðir Evrópudómstólsins verða ráðandi um túlkun á samningnum. Þess vegna, hæstv. ráðherra, er í dag lögð fram formleg ósk frá mér sem formanni Alþb. fyrir hönd flokksins um að ráðherrann leggi fram á Alþingi þegar það kemur saman í ágústmánuði efnislýsingu á þeim dómsúrskurðum Evrópubandalagsins sem fá lagagildi á Íslandi við gildistöku samningsins.
    Hæstv. ráðherra má hafa hvaða skoðun sem hann vill á þeirri ósk. Hann má nefna hvaða lönd sem hann vill þar sem hún hafi ekki komið fram, en hér er hún komin fram, hæstv. utanrrh. Hér er verið að lögfesta að úrskurðir dómstóls Evrópubandalagsins séu æðri íslenskum lögum og ég vil fá að sjá þá úrskurði, hæstv. ráðherra og ég krefst þess að Alþingi Íslendinga fái að sjá það og íslenska þjóðin fái að sjá

það. Svo má hæstv. ráðherra velja þessari ósk þau hæðnisyrði sem hann telur sér sæma sem utanrrh. Íslands. Það er ekki nóg, hæstv. ráðherra, að taka upp þá nýjung að leggja þingskjölin sín fram í fánalitunum og með skjaldarmerkinu, sem aldrei fyrr hefur verið gert á Alþingi Íslendinga, en koma svo í skítagallanum til þings þegar umræða hefst um málið.