EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:33:05 (7040)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er ekki meining mín að lengja þessa umræðu um þingsköp. Ég held hins vegar að hún hafi verið nauðsynleg vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur heyrt hér óskir þingmanna og hann getur hugleitt það mál fram til þess tíma að við tökum formlega umræðu, væntanlega einhvern tímann upp úr 17. ágúst. Það stendur auðvitað allt sem ég hef sagt um þennan tvíhliða samning, um svokallaðar gagnkvæmar veiðiheimildir, hér í þessum ræðustól og annars staðar þrátt fyrir andmæli hæstv. utanrrh. Tvíhliða samningur um gagnkvæmar veiðiheimildir var skilyrði fyrir samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég spyr hæstv. utanrrh. og hann kemur þá hér upp og svarar því ef honum sýnist: Getum við hætt við að gera tvíhliða samning um gagnkvæmar veiðiheimildir við Evrópubandalagið en samt sem áður mundi samningur um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi? ( Gripið fram í: Það hlýtur að vera.) Ég spyr og hæstv. utanrrh. greiðir væntanlega úr því. (Gripið fram í.) Hann er búinn að margtönnlast á að fyrrv. sjútvrh. Matthías Bjarnason hafi gert einhvern samning. Það sem við er átt eru gömul drög sem þóttu ekki aðgengileg fyrir íslensk stjórnvöld á þeim tíma og þess vegna var ekki unnið frekar að þeim, enda breyttust líka aðstæður við Grænland.
    Varðandi aðgengilegt dómasafn Evrópubandalagsins þá er það ekki bara fyrir þingmenn sem það þarf að vera aðgengilegt. Þýðing á öllum dómsúrskurðum Evrópudómstólsins er mikið og dýrt verk, en íslenskir dómarar þurfa í framtíðinni að taka tillit til þessara tilteknu dóma Evrópudómstólsins. E.t.v. er ósanngirni að vera að krefjast þess að þeir séu þýddir á íslensku, e.t.v. er öruggara að hafa þá aðgengilega á ensku eða einhverju öðru Evrópumáli heldur en í ófullkominni íslenskri þýðingu. Hvað þá ef utanrrh. býr til einhvern útdrátt fyrir þingmenn. Það dugir a.m.k. ekki fyrir dómarana og ég vona að íslenskir dómarar komi aldrei til með að þurfa að dæma eftir frásögnum hæstv. utanrrh. af því hvað væru staðreyndir og hvað ekki.