Skattskylda innlánsstofnana

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:59:04 (7043)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 870 leggur minni hluti efh.- og viðskn. til að máli þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég ætla ekki að færa rök fyrir því nú við þessa atkvæðagreiðslu, en vildi aðeins tilkynna það að við viljum draga þessa tillögu til baka til 3. umr. Ástæðan fyrir því er að við viljum freista þess að sannfæra ríkisstjórnina um nauðsyn þess að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil t.d. geta þess að ef bornir eru saman tveir fjárfestingarlánasjóðir, annars vegar Stofnlánadeild landbúnaðarins og hins vegar Fiskveiðasjóður Íslands, þá mun hluti af tekjum Stofnlánadeildar landbúnaðarins ekki teljast til skattskyldra tekna vegna þess að þær eru innheimtar sem ígildi vaxta af landbúnaðinum í heild. Ef hluti af vöxtum Fiskveiðasjóðs væri innheimtur sem ígildi vaxta af sjávarútveginum í heild eins og var hér áður fyrr þá yrðu tekjur þess sjóðs ekki skattskyldar.
    Þetta mál hefur verið eitt allsherjarklúður frá upphafi. Við munum hins vegar ekki á neinn hátt tefja fyrir því að málinu verði vísað til 3. umr. á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Við munum því draga þessa tillögu til baka til 3. umr. en sitja hjá við afgreiðslu málsins nú við 2. umr. í þeirri von að breyting verði á við þá næstu.