Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 12:46:48 (7048)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefði nú verið mannsbragur að því hjá hæstv. forsrh. að viðurkenna stefnubreytinguna. Hann var satt að segja aumkunarverður að þurfa að standa hér í stólnum og reyna að halda því fram að ekkert hefði gerst. Hefur hæstv. forsrh. ekki lesið ummæli síns eigin embættismanns? Eða er þetta kannski líka misskilningur hjá forstjóra Þjóðhagsstofnunar? Forstjóri Þjóðhagsstofnunar kom í sjónvarpið í gærkvöldi og lýsti þessum viðhorfum og hann kemur í DV í dag og lýsir þeim enn skýrar. Dómur hans er alveg ótvíræður. Hann segir: ,,Það er verið að leggja niður almennar reglur. Það er verið að taka upp pólitískar ákvarðanir. Og í stað þess að láta sjóðinn gegna því hlutverki sem honum var ætlað upphaflega, er verið að breyta hlutverki hans og leggja niður þennan óháða grundvöll.`` Það er ekki hægt að tala skýrar, hæstv. forsrh.
    Það hefur almennt verið talinn mannsbragur af því að viðurkenna að menn hefðu rangt fyrir sér og þyrftu að breyta um stefnu. En að halda því fram að ekkert hafi gerst, hvítt sé svart þótt breytingarnar blasi við, er auðvitað ekki í stíl þess sem ætlast verður til að hæstv. forsrh. iðki hér á Alþingi og gagnvart þjóðinni. Ég tók hins vegar eftir því að hann reyndi sífellt að segja: Hæstv. sjútvrh. og hæstv. sjútvrh., í öllum tilvikunum þannig að hann var greinilega að koma þessu yfir á hæstv. sjútvrh. Það breytir því ekki að þetta eru frumvörp ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsrh. kaus sjálfur að tala fyrir þessu frv. við þjóðina í fjölmiðlum sama daginn og það kom fram.
    Það er auðvitað alveg ljóst að það er mikill fjöldi fyrirtækja sem ekki mun njóta í neinu þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur verið að grípa til af því að þær eru sértækar aðgerðir á ákveðnu sviði. Ríkisstjórnin hefur horfið frá þeirri stefnu sinni að beita eingöngu almennum aðgerðum í stjórn efnahagsmála.