Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 12:49:27 (7050)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var nú sérkennilegt andsvar en það er kannski skiljanlegt að hæstv. forsrh. sjái ástæðu til þess að koma hér upp í ræðustólinn og lýsa því yfir að hann sé sammála hæstv. sjútvrh. ( Forsrh.: Þetta voru ummæli þín.) já, jafnvel þótt ummæli mín séu notuð. Ég var eingöngu að vekja athygli á því að ráðherrann hefði hvað eftir annað bent á að upphafsmaður þessara hugmynda hefði verið hæstv. sjútvrh. og ég tel það hæstv. sjútvrh. til tekna, hæstv. forsrh., ég tel það honum til tekna. Það var því alls ekki um árásir af minni hálfu að ræða á hæstv. sjútvrh. Ég var bara að benda á mótsagnirnar hjá hæstv. forsrh. og þá stefnubreytingu sem hér hefur átt sér stað. Auðvitað er þetta stefnubreyting. Það er þess vegna sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar andmælir henni og gagnrýnir hana, af því að forstjóri Þjóðhagsstofnunar hafði tekið alvarlega þær yfirlýsingar að hér ætti að stjórna eingöngu með almennum aðgerðum, þ.e. annars vegar með skattaaðgerðum, peningamálaaðgerðum á sviði vaxtamála eða gengisaðgerðum. Það eru hinar almennu aðgerðir sem menn beita, hæstv. forsrh. Þegar notað er orðalagið almennar aðgerðir, eiga menn við þess konar aðgerðir í efnahagsmálum; gengisaðgerðir, skattaaðgerðir eða peningamálaaðgerðir. Hér hefur hins vegar hæstv. ríkisstjórn kosið að fara tvær leiðir sjóðatilfærslna sem við styðjum vissulega í stjórnarandstöðunni og hælum hæstv. sjútvrh. fyrir að beita sér fyrir. En hæstv. forsrh. getur varla vænst þess að við hlífum honum við að draga fram að þetta er í mótsögn við það sem hann hefur sagt. Á sínu fyrsta ári hleypur hann frá stefnunni um almennar aðgerðir svo umtalsmestu aðgerðir í þágu sjávarútvegsfyrirtækjanna á fyrsta valdaári ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eru sértækar sjóðaaðgerðir af því tagi sem hæstv. forsrh. hefur sjálfur árum saman kallað sjóðasukk.