Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 12:59:20 (7052)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hæstv. sjútvrh. að ég hafi haldið því fram á liðnum árum að síðasta ríkisstjórn hafi eingöngu beitt almennum aðgerðum til bjargar sjávarútveginum. Þvert á móti var vakin rækilega athygli á því að sú ríkisstjórn fylgdi þeirri stefnu að beita bæði almennum aðgerum og sértækum aðgerðum. Genginu var breytt allverulega. Í peningamálum var stuðlað að vaxtastefnu sem bar þann árangur sem raun bar vitni og mörgum öðrum almennum aðgerðum var beitt en það var líka farið í sértækar aðgeðrir.
    Það sem ég er að gagnrýna er ekki frv., við styðjum það. Það sem ég er að gagnrýna er tvískinnungur hæstv. forsrh., að hafa ekki manndóm til þess að koma og viðurkenna það sem allir sjá og það sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar er að segja þjóðinni, bæði í sjónvarpinu í gærkvöldi og í DV í dag. Ég tók eftir því að hæstv. sjútvrh. vék ekki einu orði að forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Það var það sem ég var að gera hér áðan, ég var að vekja athygli á þessum dómi æðsta embættismanns ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Þetta er engin andstaða við frv. í sjálfu sér, þvert á móti. Það er bara verið að undirstrika það að frv. sem við erum að afgreiða er í stíl þeirra aðgerða, blandaðra aðgerða, almennra og sértækra aðgerða sem beitt var á síðasta kjörtímabili. En það er kannski ósköp eðlilegt að forustumönnum Sjálfstfl. líði dálítið illa í ljósi þeirra staðreynda að þegar þingmenn fara heim í dag hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar beitt sér fyrir sértækum sjóðaaðgerðum, sem nema tæpum 4 milljörðum í ár, sem koma eingöngu til góða tilteknum sjávarútvegsfyrirtækjum.