Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:04:32 (7055)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Vandinn varðandi þennan sjóð er sá að hann er verðjöfnunarsjóður eingöngu en ekki almennur sveiflujöfnunarsjóður. Það er alþekkt fyrirbrigði hjá okkur Íslendingum að sveiflur í sjávarútvegi geta gengið á misvíxl. Verð getur hækkað á erlendum mörkuðum þó að afkoma sjávarútvegsins versni af ýmsum ástæðum, m.a. vegna aflasamdráttar og á það hefur verið bent í umræðunni. Það hefur verið einn meginvandinn við að halda almennri samstöðu um verðjöfnun af þessu tagi. Hér er verið að viðurkenna í reynd við þessar erfiðu aðstæður að útgreiðslur úr sjóðnum geta þurft að miðast við breiðara svið en verðbreytingarnar einar. Ég er sannfærður um að ef það á að halda sátt í þjóðfélaginu um sveiflujöfnun af þessu tagi, sem ég tel að sé mikilvæg, þurfi hún að vera breiðari og víðtækari en núgildandi lög mæla fyrir um. Það er verið að bregðast með frv. við þessu. Ég er sannfærður um að það yrði ekki sátt um það til frambúðar ef hér yrði almennur brestur í atvinnustarfseminni meðan fyrirtækin eiga þetta sparifé inni óhreyft. Ég er einfaldlega ósammála mati forstjóra Þjóðhagsstofnunar í þessu efni. Ég tel að þetta geti verið mjög veigamikill þáttur í því að sátt geti tekist í framhaldinu um efnahagsráðstafanir af þessu tagi og þetta styrki ekki aðeins atvinnufyrirtækin heldur líka stöðugleikastefnu ríkisstjórnarinnar í gengismálum.