Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:16:55 (7058)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er borið fram kemur fram á hinu háa Alþingi á nokkuð sérstakan hátt. Ég veit ekki um hvort málið hefur verið til umfjöllunar í allan vetur hjá ríkisstjórninni. Hins vegar sýnist mér liggja orðið nokkuð ljóst fyrir að hæstv. sjútvrh. náði málinu ekki fram fyrr en hann tók til þess ráðs að kynna það og vinna því hljómgrunn í stjórnarandstöðuflokkunum. Það segir töluverða sögu. Það segir mér þá sögu að í þessu máli hafi meiri hluti náð saman og nái saman sem er allt annar en sá sem myndar núv. hæstv. ríkisstjórn. Meiri hluti þeirra þingmanna sem skilja það og vita að ef við ætlum að búa í landi okkar, ef við ætlum að byggja á fiskveiðum og fiskvinnslu þá verðum við að fylgja sveigjanlegri stefnu þannig að menn séu tilbúnir til þess að grípa til aðgerða þegar með þarf, bæði til að jafna út verðsveiflur og ekki síður árferðissveiflur sem koma fram í aflamarki.
    Glöggur maður benti mér á það að líklegast félli nú útgreiðslan undir reglur Verðjöfnunarsjóðsins eins og þær væru núna því að svo slæma ríkisstjórn gætu menn haft að það jafngilti verðfalli á afurðum. Kannski er það svo að þessi heimild var þarna alltaf til staðar. En þessi stefna sem ég nefndi og hefur nú náð fram fyrir þann meiri hluta, sem fyrir því er hér á Alþingi og reyndist vera eftir að hæstv. sjútvrh. leitaði eftir því, er ekki sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn boðaði í upphafi valdaferils síns. Það er ekki sú stefna sem hæstv. forsrh. hefur boðað allt til þessa dags og boðaði síðast í eldhúsdagsumræðum fyrir rúmri viku þegar hann sagði þar að nú væri sjávarútvegurinn búinn að fá þann grundvöll sem hann yrði að lifa við og starfa við og hann yrði að aðlaga sig því 10% tapi sem nú væri á fiskvinnslunni. Ég vil í því sambandi ítreka það sem margsinnis hefur komið fram í umræðunni að rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins batnar engin ósköp við þá aðgerð sem hér er verið að gera. Greiðslustaðan á næstu mánuðum skánar og rekstrarstaðan skánar að því marki sem menn geta losnað við vanskilavexti, að öðru leyti ekki. Eftir stendur að þessi grunnatvinnuvegur okkar er rekinn með miklum halla.
    Hér hefur verið rætt um vaxtamálin. Ég hef rætt þau oft í vetur. Ég ætla ekki að fara í það mörgum orðum hér, en rödd hæstv. ríkisstjórnar er svolítið hjáróma þegar þeir tala um vaxtalækkun núna. Ef við skoðum vaxtabreytingar á stjórnarferli ríkisstjórnarinnar þá fór það þannig á endanum að ríkisstjórnin varð að grípa til þess ráðs, sem hún hafði þó algerlega hafnað, að lækka vexti með handafli, því að öðruvísi er ekki hægt að skilja að það hafi verið hægt að bíða vikum og mánuðum saman eftir kjarasamningum varðandi ákvarðanir í vaxtamálum. Svo að það komi alveg skýrt fram þá styð ég þetta mál þó svo það sé slæmt að það hafi þurft að koma til þess að greiða út úr Verðjöfnunarsjóði á þessum tímapunkti.
    Það sem greitt er út úr Verðjöfnunarsjóðnun núna vegur við lauslega áætlun ekki upp á móti því sem sjávarútvegurinn hefur þurft að bera á starfstíma þessarar ríkisstjórnar í hækkuðum vöxtum og öðrum hækkuðum álögum á útveginn og fiskvinnsluna. Út frá þeim sjónarhóli dregur þessi aðgerð því ekki langt.
    Ég vil að lokum benda á og ítreka það sem hefur komið fram að það er mjög nauðsynlegt að hægt verði að tryggja áframhaldandi sveiflujöfnun í sjávarútveginum. Það er lykilatriði í allri umræðu um sjávarútvegsstefnu á næstu árum og það er í raun forsenda þess að takist að verjast auðlindaskattinum að samstaða náist meðal þeirra sem starfa við þessa atvinnugrein. Samstaða um það að byggja upp öflugan sveiflujöfnunarsjóð þannig að aðrar atvinnugreinar þurfi ekki að taka sveiflurnar, þurfi ekki að taka alltaf dýfurnar með sjávarútveginum. Það hlýtur að vera verkefni stjórnmálamanna meðal margs annars á næstu missirum og árum að móta þá stefnu. Ekki kæmi mér nú mikið á óvart, ef svo illa tekst til að þessi ríkisstjórn lifi eitthvað áfram, að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hæstv. sjútvrh. þyrfti að leita stuðnings nýs og annars meiri hluta en þess sem myndar núv. ríkisstjórn til þess að koma málum fram. Málum sem byggjast á þeirri lífsskoðun að ætlum við að lifa í þessu landi, lifa á gögnum þess og gæðum þá verðum við að vera tilbúin til þess að takast á við aðsteðjandi vanda á hverjum tíma en ekki lifa eftir kennisetningum eða frösum sem settir eru fram við stjórnarmyndunarviðræður.