Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:54:00 (7065)

     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Svo er nú hart gengið í framgangi þessa máls að ég er stiginn í ræðustól áður en ég fæ í hendur minnihlutaálitið og má þó segja að það er rösklega af mér gert að geta gengið frá því skjali undir samfelldum fundahöldum frá hálfníu í morgun án þess að nokkur stund gæfist til að vinna að álitinu, til þess að láta koma fram þá afstöðu sem ég hef varðandi afgreiðslu málsins og einstakar tillögur um málið í heild. Eins og ég gat um og mönnum var ljóst við 2. umr. málsins þá stytti ég verulega mál mitt í ljósi þess að vilji var til að leita samkomulags sem síðan reyndist ekki skila neinum árangri. Ég tel mig því hafa algjörlega óbundnar hendur hvað þetta mál varðar í 3. umr.
    Ég vil fyrst fara yfir þær brtt. sem nefndin sem slík leggur fram og rekja afstöðu mína til þeirra.
    Fyrsta tillaga á þskj. 1024 er við 6. gr. og er þar lagt til að orðin ,,fimm manna`` falli brott. Ég verð að segja að ég fagna ákaflega sinnaskiptum stjórnarliðsins í þessu máli því það er ekki lengra síðan en í gær að stjórnarliðið felldi tillögu um það að svæðisráð skyldi vera sjö manna á þessum stað. Það var ljóst í þeirri atkvæðagreiðslu að þar vinna menn eins og atkvæðamaskínur án þess að huga að efnisatriðum tillagnanna, taka afstöðu til tillagnanna eftir því hver ber þær fram en ekki eftir því hvaða efni þær innihalda. Það segir sína sögu um hvernig stjórnarliðinu er haldið saman með járnaga og má hafa um það þó nokkurt mál hvernig hæstv. ráðherra hefur gengið fram í þessu máli. Það er honum ekki til mikils framdráttar og nýtist ekki þeim sem ráðherrann þykist vera að vinna fyrir enda er það út af fyrir sig eðlilegt að hæstv. ráðherra leggi nokkurt kapp á að fá frv. samþykkt því ráðherra, sem með annarri hendinni hefur í allan vetur verið að löðrunga þetta fólk og aðra sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu með stuðningi sínum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar, telur sig eðlilega þurfa að fá einhvern kattarþvott með hinni hendinni til að geta horft framan í sumarið með sæmilegri reisn og framan í flokksþing Alþfl. Ég skil ósköp vel að ráðherranum er mikið kappsmál að fá frv. afgreitt þó svo að engin efnisatriði standi til þess.
    Þetta mál er því miður ekki nægjanlega vel ígrundað. Svo ég beiti fyrir mig orðalagi þjóðkunns manns hér í húsinu, þá ber frv. ekki vott um nægilega mikla íhygli, svo ekki sé meira sagt. Þó er um frv. það að segja að það er í heild sinni skref til réttrar áttar, eins og ég gat um í 2. umr. málsins, og ýmislegt þar sem til bóta horfir sem ég hef að sjálfsögðu stutt, bæði hér í ræðustól og í atkvæðagreiðslu um málið.
    Það verður hins vegar að draga fram þá annmarka sem eru á málinu svo mönnum séu þeir a.m.k. ljósir og gangi frá málinu vitandi vits um hvað þeir voru að gera. Það er því miður mín trú að verði frv. afgreitt í þeim búningi sem það er nú muni menn þurfa að rífa það upp innan ekki langs tíma og gera á því nokkrar breytingar til að lenda ekki í ógöngum í framkvæmd laganna.
    Til dæmis er skilgreiningarkafli laganna óljós. Þar eru tekin upp ýmis orð og hugtök sem eru ekki vel skilgreind og verður því miður að óttast að um það geti staðið nokkur deila hvernig menn hugsi sér að ganga frá skilningi á orðunum. Á þetta hefur verið bent í fjölmörgum umsögnum sem hefur verið dreift í fylgiskjölum með nál. mínu við 2. umr. sem ég verð því miður að harma, virðulegur forseti, að hefur ekki fengist prentað enn þá svo þingmenn hafa það ekki í aðgengilegu formi. Ég verð að láta í ljós mikla

hryggð, virðulegi forseti, yfir því að það skuli ekki takast á sama tíma og við fáum úr prentsmiðju skjalabunkana sem þekja heilu borðin. Ég vil ekki trúa því að forseti geri mönnum mishátt undir höfði við frágang skjala. En mér þykir óhjákvæmilegt að minna á að enn hefur það nál. ekki verið lagt fram í þinginu í bærilega aðgengilegu formi þó svo að starfsfólk þingsins hafi að sjálfsögðu lagt sig fram um að koma skjölunum til skila með þeim hætti sem það gat á þeim tíma með því að ljósrita þau.
    Ég verð því að segja varðandi 1. brtt. nefndarinnar að hún er slys sem kemur fyrir þegar menn strekkja sig of mikið eftir flokksböndum, þegar menn líma sig um of í það að það sé ekki efnið sem skipti máli, ekki innihaldið sem menn séu að greiða atkvæði um heldur persónan sem flytur tillöguna. Þá segja menn nei, ef einn flytur tillöguna, en ef það væri einhver annar hefðu menn sagt já. Þetta er það sem liggur á borðinu varðandi þessa tillögu. Mér þykir furðulegt þegar menn breyta á einum stað í frv. og segja að svæðisráð eigi að vera sjö manna en gleyma að breyta því á öðrum stað og ég hélt að það væri yfirsjón og lagði því fram mína brtt. til að leiðrétta þá yfirsjón. Að koma svo að því síðar, eftir að menn eru búnir að fella þessa leiðréttingartillögu, að menn vissu af því fyrir fram, áður en þeir greiddu atkvæði, er furðulegt. Stjórnarliðið vissi af því fyrir fram að hér var um yfirsjón að ræða en það kom bara ekki til greina að samþykkja tillöguna. Það átti bara að leiðrétta þetta milli umræðnanna. Það er með ólíkindum hvernig menn vinna svona mál. Það er ekki leiðin til að vinna að hagsmunamálum fatlaðra, virðulegur forseti, þegar ekki er hægt að samþykkja tillögu sem er afleiðing af því sem menn hafa ákveðið vegna þess að það er ekki réttur aðili sem ber tillöguna fram.
    Ég fagna því líka að stjórnarliðinu hafi snúist hugur varðandi 5. tillöguna. Þar er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði fellt brott. Þetta kom í ljós fyrir atkvæðagreiðslu, var vakin athygli á því af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, þannig að menn höfðu öll þau tækifæri sem þurfti til að átta sig á þeirri vitleysu sem hér var á ferðinni og lá auðvitað beint við í atkvæðagreiðslu í gær að fella þetta ákvæði úr lögunum. Það var ekki gert, þrátt fyrir ábendingar um það, heldur var ákvæðið samþykkt. Stjórnarliðið samþykki ákvæðið þrátt fyrir það. Kemur svo daginn eftir og leggur til að það verði fellt sem þýðir einfaldlega að stjórnarliðið er að segja: Við vorum sammála þeim sem vildu fella ákvæðið í gær en við gátum ekki samþykkt það, það voru ekki réttu aðilarnir sem báru tillöguna upp eða vöktu athygli á málinu. Svona er nú hinn kaldi veruleiki í þessari virðulegu stjórn, hæstv. forseti.
    Hvað varðar aðrar tillögur félmn. sem eru á þessu skjali, þskj. 1024, þá vil ég fyrst geta 2. töluliðar sem er afrakstur af mikilli rimmu sem staðið hefur á bak við tjöldin. Þar er gert ráð fyrir því að koma til móts við sjónarmið hv. þingmanns Eggerts Haukdals og fleiri þar sem lagt er til að bæta við 14. gr. að heimilt sé félmrh. að gera sérstaka þjónustusamninga við félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, sbr. 3. mgr. 13. gr. Ég vil varðandi þessa tillögu leggja þá fyrirspurn fyrir formann nefndarinnar og framsögumann, því hér er vitnað í 3. málsgr. 13. gr., en þar segir að greiða skuli sannanlegan rekstrarkostnað.
    Ríkisendurskoðun hefur á það bent að nauðsynlegt sé í slíkum samningum, sem hér er lagt til að verði veitt heimild til að gera, að tillit verði tekið til afgjalds, afgjalds af eignum eða afnot af eignum sem komið hefur verið upp fyrir fé annarra en ríkisins eða Framkvæmdasjóðs, sem hið frjálsa framtak hefur komið upp með sínum verkum. Það er dálítið merkilegt að upplifa það að það er ekki fyrr en í 3. umr. sem hið frjálsa framtak fær náð fyrir augum hv. félmn. og menn gera tillögu um að menn megi vinna að þessum málaflokki án þess að vera að vinna hjá ríkinu, svo gott að segja, því að fram að þessu var ekki við það komandi að setja ákvæði af þessu tagi inn. Ég spyr hv. formann nefndarinnar hvort sannanlegur rekstrarkostnaður sem um kveður í 3. mgr. 13. gr. þýði að afgjald sé tekið með. Er afgjald af þessum eignum sannanlegur rekstrarkostnaður?
    Ég hygg að ef hv. formaður nefndarinnar svarar þessu játandi, sé komin sú lögskýring sem dugi til þess að menn velkist ekki í vafa um þetta mál. Svari formaður hins vegar neitandi er lögskýringin sú sama, hún er afdráttarlaus, og menn vita þá að hverju þeir ganga. Þá er búið að hafna þessari hugmynd sem Ríkisendurskoðun og aðilar eins og Skálatún, Tjaldanes og Sólheimar hafa lagt ríka áherslu á að fá inn.
    Við 15. gr. eru gerðar tvær tillögur til breytinga, í raun er það efnislega bara ein tillaga, hin sem er málfræðileg leiðrétting fylgir á eftir. Þar er verið að bæta við að áður en félmrh. geti svipt rekstraraðila starfsleyfi þurfi hann ekki aðeins að fá tillögu svæðisráðs heldur líka stjórnarnefndar. Ég styð þetta ákvæði eindregið og hafði reyndar uppi stuðning við það áður og fagna því að nefndin hafi komið til móts við sjónarmið mín með svo kyrfilegum hætti sem raun ber vitni.
    Við 49. gr. er ákvæði sem er lagt til að breytist. Það er nauðsynlegt, og ég tek undir það, að breyta 49. gr. þannig að það liggi fyrir afdráttarlaust í lagasetningu hvaða tekjur það eru sem koma til frádráttar rekstrarkostnaði. Mér sýnist að þessi brtt. nefndarinnar muni gera það svo um það þurfi ekki að deila. Ég held ég sé sammála formanni nefndarinnar um að það þurfi ekki að deila um túlkun á greininni eins og hún lítur út núna.
    Ég veit ekki hvort búið er að útbýta því framhaldsnefndaráliti sem ég var að fá í hendurnar áðan en ég vil aðeins geyma mér að fara ofan í það lið fyrir lið en víkja að þeim brtt. sem ég flyt og eru á þskj. 1036. Það eru brtt. í fimm liðum sem ég leyfi mér að flytja og eru í raun og veru viðbótartillögur af minni hálfu til þess að fá fram afstöðu Alþingis til þeirra efnisatriða sem í þeim felast og ég tel að þessar tillögur eigi rétt á sér. Ég sé ekki annað en að þær séu það sanngjarnar og réttlátar að hv. þingmenn muni geta stutt þær ef þeir gefa sér tíma til að hugsa sig um.

    Fyrsta tillagan er breyting á 4. gr. frv. eins og það lítur út núna og sem fjallar um skipan stjórnarnefndar. Í núverandi 4. gr. er lagt til að stjórnarnefndin sé skipuð fimm aðilum, þ.e. tveimur frá ráðherra og einum frá þrennum samtökum, þ.e. Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég lagði fram við 2. umr. tillögu sem miðaði að því að hafa stjórnkerfið því sem næst óbreytt þar til ljóst væri að breytingar væru yfirvofandi á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mundu kalla fram breytingar á þessu ákvæði. Því fannst mér ekki rökrétt að gera breytingar á stjórnkerfinu. Sú afstaða fékk ekki byr þannig að ég hlýt að miða framhald mitt við það sem fyrir liggur sem afstaða Alþingis svo ég leyfi mér að gera tillögu um það hvernig stjórnarnefndin verði skipuð og sú tillaga er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Sérstök nefnd skal vera félmrn. til ráðgjafar um málefni fatlaðra. Nefnist hún stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og skal hún skipuð til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti sjö menn. Alþingi kýs þrjá menn, Samband ísl. sveitarfélaga tilnefnir tvo menn og Öryrkjabandalagið og Landssamtökin Þroskahjálp tilnefna sinn fulltrúann hvort. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna.``
    Ég legg ekki til að það verði varamenn með þessari stjórnarnefnd því það er þegar búið að fella tillögur þar að lútandi.
    Breytingin er fólgin í því að í stað tveggja fulltrúa frá ráðherra komi þrír fulltrúar beint frá Alþingi og í stað eins fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga komi tveir. Þetta er í raun og veru mjög áþekk tillaga og fram kom frá hv. þm. Eggert Haukdal sem lagði til að það yrðu þrír frá Alþingi og tveir frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég taldi ekki rétt, bæði vegna þess sem frv. hefur að geyma og vegna almennrar afstöðu þeirra sem að málinu koma, að fulltrúar hagsmunasamtakanna yrðu utan garðs og legg því til að þeir séu innan borðs í þessari nefnd.
    Ég vil minna á að það hafa farið fram viðræður milli hæstv. félmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga um 4. gr., hvernig hún eigi að hljóða. Hefur Samband ísl. sveitarfélaga, undir forustu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarfulltrúa í Reykjavík, borgarfulltrúa Sjálfstfl., ef ég man rétt, lagt mjög þunga áherslu á það hvernig stjórnarnefndin verði skipuð. Þar hafa þeir verið með þá tillögu sem hv. þm. Eggert Haukdal flutti við 2. umr. og kallaði aftur, að Alþingi kysi þrjá en Samband ísl. sveitarfélaga tvo fulltrúa. Þeir sendu síðast bréf 15. maí sl. þar sem þeir áréttuðu þessa skoðun sína eftir árangurslausar viðræður við hæstv. félmrh., eins og mönnum er eflaust kunnugt um.
    Þessi skipan mála hefur ekki aðeins í för með sér að gera Alþingi gildandi í þessu máli, sem skiptir máli eins og ég kem að síðar, heldur mun það fremur auðvelda málið en hitt að málaflokkurinn færist yfir til sveitarfélaga. Þeir aðilar sem að málinu koma og hafa sett fram skoðanir um það hafa nánast allir sagt að framtíðin sé sú að sveitarfélögin taki við þessum málaflokki. Það að auka vægi sveitarfélaga í nefndinni og taka upp fulltrúa Alþingis auðveldar þessa skipan mála.
    Aðra ástæðu fyrir því að ég tel nauðsynlegt að Alþingi eigi þarna fulltrúa til að gæta hagsmuna almennings, ef svo má að orði komast, get ég að nokkru leyti sótt til þeirrar tillögu sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram og kom fram reyndar í frv. í upphafi. Hún er sú að þegar deilt er út fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra þá setjist inn í nefndina fulltrúi frá fjárln. Alþingis. Þeir sem frv. semja telja greinilega nauðsynlegt að Alþingi hafi eitthvað með það að gera hvernig fénu verði úthlutað. Sú tillaga að skipan mála sem gerð er ráð fyrir í frv. en hins vegar með þeim annmarka að þegar fulltrúar Alþingis ganga þar til sætis eru komnir sex menn með atkvæði í nefndinni þannig að þar er ekki oddatala eins og er nauðsynlegt í öllum nefndum sem þurfa að taka veigamiklar ákvarðanir. Ég sé nú á því þann tæknilega annmarka auk þess sem ég er andvígur því að nefnd Alþingis tilnefni fulltrúa Alþingis á einhvern vettvang. Ég mundi t.d. vera heldur óhress með það að Alþfl. tilnefndi fulltrúa Alþingis í menntamálaráð. Ég held meira að segja að margir þingmenn yrðu langir í framan ef að mönnum dytti slíkt í hug. Auðvitað er það Alþingi sem kýs fulltrúa í þessa stofnun og það er svo aftur annað mál frá hvaða flokkum þeir koma. Ég tel því að Alþingi sjálft eigi að hafa þessa skipan mála og vil ganga svo langt til þeirrar áttar að Alþingi eigi þrjá menn þar inni. Það hefur líka þann kost, sem ég held að sé verulegur, að með skipan þriggja manna frá Alþingi er ávallt tryggt að minni hluti eða stjórnarandstaða á Alþingi eigi einn fulltrúa af þessum þremur. Undir nánast öllum venjulegum kringumstæðum mun skiptingin vera þannig að stjórnarliðið hafi tvo og stjórnarandstaðan einn fulltrúa. Ég tel afar þýðingarmikið að málum sé þannig skipað að stjórnarandstaðan sé ekki útilokuð frá málinu.
    Ég geri líka breytingar, fyrir utan það hvernig nefndin eigi að vera saman sett, á valdsviði nefndarinnar þegar hún fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórn sjóðsins eigi að úthluta sjálf fénu, ekki ráðherra. Ákvæðin, eins og þau eru í frv. núna, eru ákaflega veik. Fyrir það fyrsta gerir ráðherra tillögu til sjóðstjórnarinnar um heildarsvæðisskipulag og annað slíkt. Stjórnarnefndin vinnur úr þeim tillögum tillögur sem hún sendir til baka til ráðherra. Síðan getur ráðherra hent þeim tillögum eins og honum sýnist, einni eða allri, og búið til nýjar. Í raun og veru þarf enga stjórnarnefnd til að skipta peningunum fyrst ákvarðanaferillinn á að vera þessi. Það er alveg eins hægt að segja: Við skulum bara láta ráðherrann skipta þessu. Hann er hvort sem er stjórnunarlega séð með allt batteríið undir sinni stjórn, hann á að setja upp þessar áætlanir og annað slíkt og samræma áætlanir svæðisráðanna. Nauðsynin á stjórnarnefndinni undir þessum kringumstæðum er mér því ekki ljós, a.m.k. ekki hvað varðar það hlutverk að útdeila fé.

    Hins vegar tel ég óheppilegt og vil láta það koma fram, þótt ég geri ekki tillögu til breytinga á því, að stjórnarnefnd hafi tvíþætt hlutverk. Annars vegar að útdeila peningum og hins vegar að vera til ráðuneytis um málefni fatlaðra, t.d. eins og segir í 4. gr. frv., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Stjórnarnefnd skal gera tillögu til félmrh. um sérhæfða þjónustu við fatlaða á landsvísu`` o.s.frv. Þetta á því að vera fagleg nefnd öðrum þræði en hinum þræði að útdeila peningum. Ég held að það væri rétt að aðskilja þetta tvennt þó ég gangi ekki lengra en að viðra þessi sjónarmið mönnum til umhugsunar en legg ekki fram tillögu um það.
    Ég tel því að öll rök hnígi í þá átt að menn hafi skipan mála með þeim hætti sem ég legg til í annarri og þriðju tillögu. Þar legg ég til þá breytingu að það verði sjóðstjórnin sjálf sem úthluti peningunum. Rétt eins og Húsnæðismálastjórn úthlutar sínu fé, Byggðastofnun úthlutar sínu fé o.s.frv. Ég held að það sé rétt að hafa skipan mála með þeim hætti og hafa beint samband milli þess fjárveitingavalds og Alþingis. Hér er um að ræða verulega mikið fé á hverju ári sem stjórnin gerir tillögu um til úthlutunar eða um 250--300 millj. kr. Ég spyr bara: Hvaða ráðherra í ríkisstjórn Íslands hefur svo mikið fé undir höndum til ráðstöfunar? Er það skynsamleg skipan mála af hálfu löggjafarvaldsins að láta framkvæmdarvaldið skipta svona miklu fé? Nefnum bara sem dæmi þegar menn eru nánast að togast á um fimmeyringa við fjárlagaafgreiðslu í hin og þessi verkefni, 100 þús. kr. í þennan vegaspotta eða eitthvað slíkt. Þetta eru menn að leggja á sig til að reyna að ná málum fram, til að vinna að sínum hugðarefnum og sinna sínum umbjóðendum. Svo afhendir Alþingi einum ráðherra kvart milljarð --- ,,versgú``. Ég held að menn finni þess ekki dæmi að nokkur annar ráðherra hafi slíkt fjármagn undir höndum til útdeilingar. Raunar er ég ekki gegnfróður um íslenska stjórnkerfið en ég veit af tilvist Framkvæmdasjóðs aldraðra en ég hygg að þar sé mun minna fé á ferðinni auk þess sem uppbyggingin er öðruvísi. Ég hafði með mér lög um málefni fatlaðra og sé þar að sú stjórn sem skiptir fénu, eða gerir tillögur til heilbrrh. um að skipta fénu, hefur miklu meira vald á málinu við tillögugerðina. Það er því ólíku saman að jafna þó hitt sé sama. Það var tekið upp 1989 illu heilli að setja sjóð undir forsjá ráðherra. Það mega menn helst ekki gera, það er yfirleitt heldur vondur siður á Íslandi að láta ráðherra hafa mikið af sjóðum til umráða. Þeir ættu helst að vera sem magrastir og Alþingi á að gera sem mest af því að skipta sjálft peningunum sem ætlað er til þarfra verkefna.
    Ég geri einnig tillögu um það, virðulegi forseti, í b-lið í fyrstu tillögu, að bæta við hlutverk stjórnarnefndar. Ég legg þar til að stjórnarnefnd úrskurði ,,að fenginni umsögn viðkomandi svæðisráðs, um ágreiningsatriði sem upp kunna að koma vegna framkvæmdar laga þessara, en vísa má þeim úrskurði til ráðherra.`` Þetta þykir mér vanta í frv. eins og það er nú úr garði gert. Mér þykir vanta alveg úrskurðaferilinn og það er nauðsynlegt að hann sé klár þegar skilgreiningarnar eru dálítið óljósar. Skilgreiningin, hver á rétt á þjónustu samkvæmt þessum lögum, hver er fatlaður, er ekki mjög ljós, virðulegur forseti. Hún er dálítið í þoku. Menn vita ekki nákvæmlega um hverja verið er að tala. Enda er það sett inn í frv. að starfsfólkið á svæðisskrifstofunum á að úrskurða það. Það eru hins vegar engar faglegar kröfur gerðar í frv. til þessa starfsfólks og tillögur frá mér um það voru allar felldar þó að í sjálfu sér hvarfli það ekki að mér að menn geri það viljandi að ráða á svæðisskrifstofurnar fólk sem hefur ekki mikla faglega menntun. Það ætla ég ekki nokkrum manni. En ekki er víst að allar þessar skrifstofur séu þannig mannaðar að þar sé sú faglega hæfni fyrir hendi að þær geti gefið þennan úrskurð sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þann einstakling sem í hlut á.
    Mér finnst það verulegur galli á frv., virðulegur forseti, að menn skuli hafa hrapað að því óheillaráði að fella allar hugmyndir, hafna öllum hugmyndum um faglega uppbyggingu á þessum stöðum, hafna tillögu frá mér um að auka hinn faglega grunn, styrkja svæðisskrifstofurnar. Það var bara af því, virðulegi forseti, að ég held --- ég vil nú ekki gera mönnum meira upp en ég veit --- að mönnum hafi verið sagt að fella þetta. Því miður. Ég verð að tala í fullri hreinskilni um það og menn ýta bara á takkana. Meira að segja gekk það svo langt í gær að hv. þingflokksformaður Sjálfstfl. kom upp og kvartaði yfir því að ákveðnir þingmenn hefðu ekki alltaf greitt atkvæði eins og þeir hefðu átt að gera. Það var alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, að upplifa það að þingflokksformaður Sjálfstfl. skyldi kvarta yfir því að einstakir þingmenn Sjálfstfl. greiddu ekki alltaf atkvæði eins og stóð á blaðinu hjá þeim. Ég veit að virðulegur forseti gerði enga athugasemd við það, enda held ég að þetta hafi ekki átt við hann. Ég held að hann hafi alltaf greitt atkvæði eftir sinni sannfæringu í þessum málum í gær. Ég er alveg handviss um það, þótt öðru sé hvíslað í eyra mitt, en ég trúi því ekki. Þegar einstaka brtt. frá ,,vondu fólki``, ef svo má segja, frá fólki sem ekki hafði fengið stimpilinn frá félmrh. um að það mætti samþykkja tillöguna, fékkst kannski samþykkt varð uppi írafár og menn ruku hér upp og endurtóku atkvæðagreiðslur þar til þeir voru búnir að fella málið. Það hefði einhvern tímann verið vísað til Sovétríkjanna þegar menn horfðu á svona vinnubrögð. Ég er hræddur um að sjálfstæðismenn hefðu einhvern tímann staðið upp og sagt: Heyrðu, svona gera menn bara í Sovét, ekki hér á hinu háa Alþingi á Íslandi.    
    En þetta er svona. Það er staðreynd, virðulegi forseti, að þannig er málum komið að hæstv. fjmrh. tók það að sér að vera varðhundur stjórnarliðsins og krafðist þess að atkvæðagreiðsla yrði endurtekin. Auðvitað er það þannig að sá sem gerir mistökin getur farið fram á endurtekningu. Það eru ekki aðrir, virðulegi forseti. Þegar skoðað var hvernig hæstv. fjmrh. greiddi atkvæði hafði hann ekki gert nein mistök. Hann hafði farið eftir línunni, hann kunni Moskvulínuna. Hann sagði nei. En samt var atkvæðagreiðslan endurtekin, væntanlega til þess að hæstv. fjmrh. gæti skipt um skoðun og sagt já og stutt tillögu frá minni hlutanum. Nei, þegar það var skoðað var hæstv. fjmrh. enn sömu skoðunar, hann sagði nei aftur. Ég spyr virðulegan forseta: Hvað á það að þýða að menn geti beðið hér um endurtekningu á atkvæðagreiðslu og greiði svo atkvæði eins og þeir gerðu áður? Með hvaða rökum fellst forseti á það að atkvæðagreiðsla verði endurtekin? Ég veit að virðulegum forseta verður svarafátt enda held ég að við vitum öll svarið. Það er bara Moskvulínan sem gildir í Sjálfstfl., það er ekkert annað. Annað má ekki verða ofan á og hæstv. fjmrh. er mjög skeleggur talsmaður þessarar línu. Þar eru menn barðir niður eins og hundar ef þeir hafa einhverja sjálfstæða skoðun. Ég verð því miður að segja það.
    Ég vil svo víkja að fjórðu tillögu í brtt. minni og þar kemur að hugmyndafræðilegum ágreiningi milli mín sem jafnaðarmanns og hæstv. félmrh. sem ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Ég er andvígur því að taka upp þjónustugjöld af fólki sem á ekki létt með að bera þau en virðulegur ráðherra er eindreginn talsmaður þess. Ég lagði fram í gær tillögu um að afnema með öllu þessa grein sem nú heitir 50. gr. og ef ég man atkvæðagreiðsluna rétt voru það ekki svo slæm úrslit þótt málið tapaðist. Mig minnir að stuðningur hafi verið nokkur. Það voru 22 með tillögunni og 29 á móti. Eða með öðrum orðum var þetta var nokkurn veginn stjórnarliðið og stjórnarandstaðan nema hvað mig minnir að hv. 5. þm. Reykv. hafi stutt þetta mál þó ég sé ekki alveg viss og vil því ekki fullyrða það. Hann studdi nokkrar af tillögum mínum og annarra nefndarmanna sem fluttu sjálfstæðar tillögur.
    Ég vil, fyrst tillagan er fallin og þýðir ekkert um það að fást á þessu stigi, það er búið að fella það að láta greinina út, koma með aðra tillögu sem er varatillaga. Hún gengur út á það að takmarka við 21. gr. heimild ráðherra til að gefa út reglugerð og ákvarða gjaldtöku vegna þjónustu, heimildin nær því ekki til 22. gr. sem er um skammtímavistun. Rökin fyrir þessari tillögu eru einfaldlega fólgin í lagagreininni sjálfri. Ég held að hverjum þeim sem les þessa tillögu sé það ljóst að þarna er ekki neinn skattstofn til þess að slægjast eftir, þetta eru nú ósköp lélegar slægjur, jafnvel fyrir ráðherra Alþfl. því þeir eru, eins og alkunna er og þjóð veit, manna drýgstir til að finna sér slægjur á þessum akri.
    En 22. gr. er þannig, með leyfi forseta: ,,Foreldrar skulu eiga kost á skammtímavistun fyrir fötluð börn sín þegar þörf er á. Skammtímavistun er ætlað að veita fötluðum tímabundna dvöl til hvíldar eða vegna erfiðra heimilisaðstæðna, svo sem vegna veikinda eða annars álags.``
    Ég tel að þingmenn ættu að gera orðið sammála um að við svona aðstæður eiga menn ekki að vera að leggja á þjónustugjöld. Ég held að þó að menn greini á um ýmislegt í íslenskri pólitík og auðvitað hafa menn ýmsar skoðanir, eins og ég og hæstv. félmrh. sem erum náttúrlega að mörgu leyti ósammála, enda er ég jafnaðarmaður og hún er í Alþfl., að þá held ég að menn hljóti að geta orðið sammála um að þarna eiga menn ekki að sækja sér aura. Það er ekki mikið sprottið grasið í þeirri slægjunni.
    Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, leggja til að þrengja þetta heimildarákvæði og taka skammtímavistunina út og vitna til greinarinnar sjálfrar sem skýringu á þessu máli.
    Fimmta tillaga mín, virðulegi forseti, er nauðsynleg og ég hygg að í reyndinni sé það yfirsjón hjá nefndinni, bæði hjá mér og öðrum nefndarmönnum að hafa ekki komið auga á að auðvitað þurfti ákvæði af þessum toga að vera inni í lögunum. En ákvæðið er þannig, virðulegi forseti, að ég legg til nýtt bráðabirgðaákvæði sem miðar við núgildandi frv. og yrði þá ákvæði nr. IV, en yrði nr. III ef ákvæði nr. II yrði fellt brott, og er svohljóðandi:
    ,,Frá og með þeim tíma, sem svæðisskrifstofur taka við skrifstofum svæðisstjórna, skulu starfsmenn svæðisstjórna verða starfsmenn svæðisskrifstofa og halda óbreyttum kjörum.``
    Útskýringin er tiltölulega einföld, frv. er þannig að verið er að leggja niður svæðisstjórnirnar og þeirra skrifstofur og taka upp nýtt batterí, það er í raun og veru nafnabreyting. En til þess að starfsfólkið sé ekki í óvissu um sína framtíð er auðvitað eðlilegt að setja þetta ákvæði þannig að það flytjist yfir þó að skrifstofan skipti um nafn og færist úr því að vera undir stjórn svæðisstjórnar eins og í dag, undir það að vera undir stjórn félmrh.
    Ég bendi mönnum á til rökstuðnings fyrir því að svona ákvæði hafa gjarnan verið sett í lög á Íslandi, það er frv. til laga um yfirskattanefnd. --- Ég spyr, virðulegi forseti, er búið að afgreiða það sem lög? ( Forseti: Já.) Það er orðið að lögum, þannig að þetta sem ég er með í höndunum eru orðin lög. Þar kannast menn við að verið er að leggja ríkisskattanefnd niður en setja á laggirnar yfirskattanefnd. Það er ekki bara þeir menn sem eru í þeirri nefnd, það er líka fólk sem vinnur fyrir þessa nefnd. Og ákvæði til bráðabirgða III í lögum um yfirskattanefnd er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Frá og með þeim tíma, sem yfirskattanefnd tekur við störfum ríkisskattanefndar, skulu starfsmenn ríkisskattanefndar verða starfsmenn yfirskattanefndar og halda óbreyttum kjörum.``
    Ég gríp þannig til þess ráðs að leggja til að menn hafi þetta með sama hætti og menn voru að samþykkja fyrir tveimur dögum eða svo, virðulegi forseti, ég er ekki með það alveg á tæru, en ég held að menn ættu að geta sameinast um þetta. En ég bendi á að verði þetta ákvæði fellt þá eru menn að segja: Félagsmálaráðherra á að hafa það í valdi sínu hverjir fái að vinna áfram þarna af þeim sem í dag vinna á þessum skrifstofum. Og ef menn segja það þá eru menn líka að segja að við viljum ekki samþykkja ákvæðið vegna þess að við erum að gefa hæstv. félmrh. heimild til að reka eitthvað af þessu fólki og þá er eins gott að menn komi fram í dagsljósið og segi það berum orðum við afgreiðslu málsins.
    Ég vek athygli á því að ef menn taka þá afstöðu vekur það sjálfkrafa upp þessa leið. Auðvitað

vona ég og trúi því að hv. þm. og hæstv. ráðherra séu ekki með það í huga og munu þar af leiðandi geta með glöðu geði fellt sig við ákvæði til bráðabirgða af þessu tagi.
    Ég hef þá farið yfir í stuttu máli þær brtt. sem ég valdi til að flytja við 3. umr. málsins. Ég hygg að ég fari nokkuð nærri um það að búið sé að útbýta frhnál. minni hluta félmn. og ef ég get mér rétt til um það, þá er ég að hugsa um að fara að víkja að því. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm.? ( EgJ: Er málið þá orðið upplýst?) Já, málið er nokkuð skýrt en það getur alltaf skýrar orðið, virðulegur þingmaður.
    Ég vil líta til frhnál. sem ég er reyndar með hálfpartinn í handriti en ég hygg að þingmenn séu komnir með í endanlegri gerð. Ég vil lesa upp úr því þannig að til skila komist hvað í þessu áliti stendur og mönnum sé ljóst hver efnisleg afstaða mín er til einstakra tillagna og málsins í heild. Það hefst þannig, virðulegi forseti, með leyfi:
    ,,Að kröfu minni hluta félmn. var haldinn fundur í félmn. í morgun og fengnir til fundar fulltrúar Þroskahjálpar, Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar, Tjaldaness og Skálatúns, auk þess sem Margrét Margeirsdóttir, deildarstjóri í félmrn. mætti á fundinn.`` --- Ég vil geta þess, virðulegi forseti, að það kom fram á þessum fundi að fulltrúar Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins höfðu óskað eftir fundi með nefndinni fyrir hálfum mánuði en var tjáð að því miður væri það ekki unnt vegna anna í nefndinni. Það er hins vegar rétt hjá hv. formanni nefndarinnar að það mun ekki hafa verið formaður nefndarinnar sem formlega synjaði um erindið og ég dreg það til baka og bið formanninn velvirðingar að hafa borið hana fyrir því í gær en málið verður ekki mikið betra því menn geta augljóslega séð hvert formaðurinn er þá að beina gagnrýninni. En ég læt formanninum það eftir að upplýsa hver synjaði um fundinn.
    ,,Fulltrúar Tjaldaness og Skálatúns lögðu áherslu á að verksvið réttindagæslumanns yrði betur skilgreint, enn fremur að sjálfsagt og eðlilegt væri að ríki greiddi sjálfseignarstofnunum afgjald fyrir afnot af eignum sem ekki hefðu verið fjármagnaðar af ríki. Þá kom fram frá fulltrúum Tjaldaness að heimilið hefði verið afhent 1976 skulda- og kvaðalaust til heilbr.- og trmrn. . . .  `` --- Ég skýt því inn að þáv. ráðherra var hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason. --- ,, . . .  og óskað var eindregið eftir því að sú skipan mála yrði áfram.`` --- Fulltrúar Tjaldaness báru það fram sem sína formlegu ósk á nefndarfundi í morgun að heimilið heyrði áfram undir heilbrrn. Þetta er að gefnu tilefni og kemur reyndar fram í grg. með frv. sem ég vitnaði til í nál. og er svohljóðandi: ,,Þetta var áréttað vegna þess sem fram kemur í athugasemdum við 11. gr. frv. [sem yrði þá 10. gr.] að ,,starfsemi Tjaldaness þykir þó standa nær þeim vistheimilum sem heyra undir félmrn. heldur en stofnunum á vegum heilbrrn. Viðræður hafa því átt sér stað milli heilbr.- og félmrn. um framtíð Tjaldaness og eru aðilar sammála um að eðlilegt sé að vistheimilið flytjist undir félmrn. Stefnt skal að því að sú breyting eigi sér stað við gildistöku laga þessara.````
    Með öðrum orðum hæstv. félmrh., flutningsmaður málsins, er að upplýsa þingheim um að heilbrrn. og félmrn. séu sammála um að flytja Tjaldanes undir félmrn. og stefnt sé að því þegar lögin taka gildi. Við vorum upplýstir um það í nefndinni í morgun af þeim aðilum sem komu sem fulltrúar Tjaldaness að þeir vilja þetta ekki.
    Ég hlýt að spyrja sjálfan mig, virðulegur forseti, hvers vegna í ósköpunum var ekki búið að kalla þetta fólk fyrir nefndina fyrir löngu þegar um er að ræða svona mikið mál og viðkvæmt? Það kemur á nefndarfundinn í morgun af því að ég bað sérstaklega um það í gær. Hefur meiri hluti félmn. ekkert við þetta fólk að tala? Hvað eru menn að hugsa? Látum það vera þó einstakir nefndarmenn og forsvarsmenn Tjaldaness séu ósammála en leyfum þeim að tala fyrir máli sínu. Leyfum þeim að hitta nefndina og tala við okkur. Segja okkur sitt álit. Það var gert í morgun, virðulegi forseti, örfáum klukkutímum áður en á að afgreiða þetta mál úr þinginu. Hvers konar framkoma er þetta, virðulegi forseti, nefnd undir forustu fulltrúa Jafnaðarmannaflokks Íslands? Ja, þvílíkur jafnaðarmannaflokkur. Ég glotti nú eins og hv. þm. Egill Jónsson gerir stundum, ég held ég glotti mikið.
    ,,Telur minni hlutinn eðlilegt að ekki séu gerðar breytingar á skipan þessara mála sem ganga þvert á vilja Tjaldaness.`` Hér læt ég uppi mína afstöðu. Ég vil ekki taka upp skipan mála þvert á vilja þeirra sem í hlut eiga. Ég hef ekki kynnt mér þetta mál til neinnar hlítar og get ekkert um það sagt. Ég verð að tala við fleiri aðila til að mynda mér skoðun á því, en það nægir mér að vita hversu eindregin andstaða þessa fólks er til þess að segja: Við breytum engu fyrr en að athuguðu máli a.m.k. Það nægir mér. Breytum ekki gegn vilja þessa fólks. Ég held að það sé nú alveg lágmarkið. --- Held ég áfram lestri úr frhnál., virðulegi forseti:
    ,,Þá vill minni hlutinn taka fram að fram kom hjá Margréti Margeirsdóttur að mikilvægt væri að koma upp starfsprófunardeild og að felldum 6. tölulið 17. gr. frv. vantaði einhvern aðila til þess að sinna þessu mikilvæga hlutverki, sem er nauðsynleg forsenda XII. kafla frv., um atvinnumál.`` --- Þetta kom skýrt fram af hálfu deildarstjóra félmrn. sem mætti á fundinn að minni ósk.
    6. tölul. 17. gr. frv. sem var felldur var um göngudeild fullorðinna á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Auðvitað var í mörgum umsögnum sagt: Við eigum ekki að byggja þetta upp í Reykjavík eingöngu og út af fyrir sig er ég alveg sammála því. En það var ákveðinn tilgangur með göngudeild fullorðinna. Hún átti að þessi vera þessi starfsprófunardeild sem allt annað hvílir á sem á eftir fer. Það er til lítils að vera með einhvern kafla um atvinnumál ef það vantar að vita í hvaða átt á að þróa einstaklinginn, þannig að ég vona að hv. nefndarmönnum sé a.m.k. ljóst að þeir voru að gera verulegt glappaskot með því að fella þetta ákvæði út úr frv. án þess að byggja upp annars staðar. Það var nefnilega ekki gert. Ég hefði

út af fyrir sig getað samþykkt það --- allt í lagi við skulum ekkert vera að hafa þetta á Greiningarstöðinni, við skulum þá setja þetta upp annars staðar. Ég hefði getað fallist á það. En ég get ekki fallist á að fella þetta út og taka það ekki inn annars staðar, enda var röksemdin að þetta sparaði peninga. Það var alveg skínandi röksemd og dugar vel. ( Gripið fram í: Lestu nú fyrri hlutann af röksemdinni.) Já, já, það var lesið og farið yfir það allt í gær, en þetta var samt það sem þar kom fram, virðulegi þingmaður, það þýðir ekki að kveinka sér undan því. ( Gripið fram í: Nei, við skulum bara hafa sannleikann í málinu.) Já, já, við skulum hafa sannleikann, við skulum bara lesa sannleikann aftur, virðulegur þingmaður. Þá ætla ég að leita í skjalabunkanum að nál. meiri hlutans og lesa upp úr því þannig að það sé lesið yfir mönnum hvað þeir voru að samþykkja í þessum efnum a.m.k. tvisvar á tveimur dögum. Hér segir, virðulegi forseti, þannig:
    ,,Umsagnaraðilar láta og í ljós efasemdir um gildi göngudeildar fullorðinna á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Í ljósi þessa þykir ekki rétt að stofnað verði til slíkrar deildar einkum þegar haft er í huga að hún hefði talsverð útgjöld í för með sér.``
    Þetta er nú sannleikurinn, virðulegi forseti, og ekki nema eðlilegt að hv. 3. þm. Vestf. kveinki sér pínulítið undan þessu. Auðvitað, eins og ég gat um áðan, eru margir sem höfðu efasemdir um gildi þess að göngudeildin væri á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni, en þar með voru menn ekki að segja að það ætti ekki að vera slík deild. Menn voru bara að segja: Við eigum að byggja hana upp úti á landi.
    Nefndin valdi hins vegar þann kostinn að fella hana bara út. Það var óheillaspor. Auðvitað kemur að því að svona deild verður til. Ég var búinn að kynna mér þetta mál og mér er alveg fullljóst að deild af þessu tagi mun koma. Þörfin er brýn og kallar eftir því og auðvitað mun þetta koma í tímans rás, en því fyrr sem það hefði komið þeim mun betra.
    Held ég nú áfram lestrinum, virðulegi forseti:
    ,,Fulltrúi Öryrkjabandalagsins lagði áherslu á að samtökin teldu 2. málsl. 31. gr. frumvarpsins óþarfan og vöruðu við honum og enn fremur að samtökin teldu rétt að stjórnarnefnd yrði falið að úrskurða um ágreiningsatriði sem upp kunna að koma vegna framkvæmdar laganna og heimild til að vísa þeim úrskurði til ráðherra. Er þetta í samræmi við athugasemd við 4. gr. frv. sem fram kemur í umsögn Þroskahjálpar.``
    Þarna vísa ég reyndar til brtt. frá mér sem ég er búinn að kynna um það að fela stjórnarnefnd að veita úrskurð í ágreiningsmálum. Það kom fram hjá fulltrúum Öryrkjabandalagsins að þeim þótti miður að inn í frv. skyldi vera komin setningin í 31. gr., eða núv. 30. gr., með leyfi forseta: ,,Heimilt skal jafnframt að starfrækja verndaða vinnustaði fyrir fatlaða.``
    Ég lagði til að þessi setning yrði felld brott einmitt með þeim rökum sem fram komu hjá þessum aðilum og reyndar fleirum í umsögnum en á það féllst Alþingi ekki þannig að þessu verður ekki breytt.
    Hins vegar er von til þess að verða við óskum Öryrkjabandalagsins um úrskurðaratriði. Það er enn von og því hef ég leyft mér að leggja fram tillögu um það.
    Að öðru leyti lögðu fulltrúar hagsmunasamtakanna ekki áherslu á þær athugasemdir sínar í umsögnunum sem ekki hefur verið mætt og verður af hálfu minni hlutans ekki frekar haldið fram kröfum um að koma til móts við þær nú. Það var ljóst þegar við fórum yfir umsagnir þessara aðila, Sjálfsbjargar, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins, að þeir höfðu gert mjög margar ábendingar og athugasemdir og að mörgu leyti mjög skynsamlegar. Nokkrar af þeim höfðu verið teknar til greina en megnið stóð út af og hafði ekki verið tekið til greina í umfjöllun nefndarinnar og þingsins. Ég lagði þá spurningu fyrir þessi samtök: Eru einhver af þessum atriðum sem þið viljið leggja áherslu á að fá inn í frv.? Svarið var alveg klárt. Svo var ekki. Af eðlilegum ástæðum hlýt ég að halda að mér höndum við það með að ná fram breytingum á frv. til að mæta þeim óskum. Ég tel því eðlilegt að vera ekki að strekkja frekar í þeim málum fyrst það er vilji hagsmunasamtakanna að málið gangi svona fram. En menn verða þá að gera sér grein fyrir því að það fer fram á þeirra ábyrgð. Forsjármenn hagsmunasamtakanna, sem mættu á fund nefndarinnar í morgun og gáfu þessa yfirlýsingu, verða að kannast við það að þetta var þeirra val. ( GHelg: Valið er okkar.) Valið er okkar, segir hv. 14. þm. Reykv. og hefur auðvitað rétt fyrir sér eins og ævinlega. ( GHelg: Já.) ( EKG: Þetta verður munað í þingflokknum.) Já, ég hygg, hv. 3. þm. Vestf., að þetta verði rækilega munað í þingflokknum og ég verði minntur á þetta einhvern tímann.
    Ég er dálítið ósáttur við að menn skuli ekki hafa lagt fram sem áhersluatriði á fundi nefndarinnar í morgun það sem menn vildu og biðja nefndarmenn um að reyna að koma því áfram. En það verður bara svo að vera. Það þýðir ekki að fást meira um það, menn eru komnir í þennan gír og virðist erfitt að skipta niður. Ég er reyndar með þessar umsagnir og nefni dæmi til fróðleiks svo menn geti áttað sig á því að hve miklu leyti hefur verið mætt óskum samtakanna. Ég ætla aðeins að drepa á helstu atriðið. Ég er t.d. með umsögn Sjálfsbjargar, sem vill ekki frekar reyna að ná fram breytingum á frv. og láta það fara fram eins og það er. Fulltrúi Sjálfsbjargar gaf þá yfirlýsingu í morgun. Þeir eru með umsögn upp á tíu síður og athugasemdir í fjölmörgum atriðum. Þeir gagnrýna miðstýringaráformin í frv. Þeir telja að það sé ekkert gagn í 25. gr. frv. um liðveislu. Þeir telja að það sé í raun og veru gagnslaust eins og frá því er gengið. Þeir telja líka að 35. gr. um samstarfsnefnd um ferlimál fatlaðra hafi lítið hald og orða það þannig: ,,Viljayfirlýsingar í frv. sem ekkert gagn er í.`` Það er þeirra álit á þessum tveimur atriðum. Þeir óskuðu eftir því að gerðar yrðu breytingar á 1., 3. og 4. gr. frv. Ekkert af því hefur verið tekið til greina. Sjálfsbjörg óskaði eftir því að stjórnarnefndinni yrði falið að vera úrskurðaraðili sem hefur ekki enn verið tekið til greina og ég er að leggja til sem þrautalendingu í málinu, skulum við segja. Þeir bentu á að í 5. gr. væri ákvæði 2.

mgr. óljóst, þ.e. það var ekki ljóst hver tæki ákvörðun um skiptingu starfssvæða í þjónustusvæði. Ég lagði fram brtt. í gær til að taka af öll tvímæli og þá var ég einmitt með umsögn Sjálfsbjargar í huga til að bæta úr þeim ágalla sem þeir bentu á. Sú tillaga var auðvitað felld.
    Sjálfsbjörg gagnrýnir 6. gr. mjög mikið og mig langar að vitna í þá gagnrýni. Þeir segja hér, með leyfi forseta:
    ,,Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á valdsviði og verkefnum svæðisstjórna. Samkvæmt greinargerð með 6. gr. liggur sú hugmynd að baki þessari breyttu tilhögun að aðskilja framkvæmd þjónustunnar annars vegar og mat á þjónustuþörf og eftirlit með framkvæmd hins vegar. Sjálfsbjörg telur að hér hafi ekki tekist til sem skyldi.
    Í fyrsta lagi veldur þessi breyting stóraukinni miðstýringu í málefnum fatlaðra sem Sjálfsbjörg telur óeðlilega. Þau rök eru alkunn að þeir sem næst vettvangi eru séu hæfastir til að taka ákvarðanir um þjónustu og framkvæmd hennar á viðkomandi svæði. Sjálfsbjörg telur því að millistjórnarstig heima í héraði hljóti að vera nauðsynlegt.`` --- Þetta hefur ekki verið tekið til greina.
    ,,Í öðru lagi telur Sjálfsbjörg að með núverandi 6. gr. sé markmiði breytingarinnar ekki náð. Eins og ákvæði frumvarpsins eru skulu svæðisskrifstofur og starfsmenn sjá um framkvæmd þjónustunnar. Samkvæmt 5. tölulið 13. gr. frv. skulu starfsmenn svæðisskrifstofunnar veita svæðisráðum aðstoð og þjónustu til þess að þau geti sem best sinnt hlutverki sínu. Það eru því sömu starfsmenn sem eiga að sjá um framkvæmd og sinna eftirliti með framkvæmdinni í frv. og verður því ekki séð að tilgangi frv. um aðskilnað, framkvæmdir og eftirlit sé náð með frv.``
    Sjálfsbjörg leggur t.d. til í sambandi við 6. gr., um svæðisráðin, að skipaðir verði varamenn. Það var tillaga sem ég bar hér fram í gær. Hún náði ekki fram að ganga. Sjálfsbjörg vill breytingar á 8. gr. Það má segja að hún hefði viljað breytingar í því skyni að tryggja samstarf ráðuneyta félags-, heilbrigðis- og menntamála og hagsmunasamtaka. Það má segja að það hafi verið farið í hina áttina með því að fella 8. gr. niður.
    Þannig get ég haldið áfram því þeir gera þetta afar ítarlega. Ég get dregið þetta saman með því að segja að megnið af tillögum Sjálfsbjargar nær ekki fram að ganga. Eins er með Þroskahjálp, sem hefur beitt sér af miklum krafti í þessu máli, og hvergi af sér dregið --- formaðurinn hefur verið afar duglegur á göngum þingsins, m.a. í viðræðum við samflokksþingmenn mína í því skyni að fá þá til þess að hafa áhrif á mína afstöðu en mér þykir afar hvimleitt að menn vinni þannig --- en forsvarsmenn Þroskahjálpar eru af eðlilegum ástæðum, eins og allir aðrir, mjög velviljaðir frv. og taka vel undir markmið þess. Athugasemdirnar ganga út á það að gera hlutina betur. Menn verða alltaf að líta á málin frá þeim sjónarhóli. Þeir eru með athugasemd við 4. gr. og vilja fá úrskurðarnefnd. Hún er ekki. Þeir vilja fá breytt 5. gr. þannig að það verði skýrt hver það er sem getur breytt svæðaskiptingu. Það er ekki. Þroskahjálp vill að svæðisráðin fái að ráða sér starfsmann. Sú tillaga hefur ekki komið inn. Þeir vilja að 8. gr. falli út og það hefur orðið. Við 10. gr. sýnist mér athugasemd vera komin inn. Þeir eru með tillögur um t.d. að svæðisskrifstofurnar hafi með höndum sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf. Það er ekki. Þeir eru t.d. með hugmyndir um það að sett verði upp sérstök úrskurðarnefnd sem verði trúnaðarmönnum og svæðisráðum til ráðgjafar. Það hefur ekki verið orðið við því. Fleira hafa þeir drepið á sem mér finnst mjög athyglivert en hefur ekki einu sinni komist inn í umræðu um það hvort það kæmi til greina.
    Þannig gæti ég rakið í mörgum atriðum það sem menn eru með ábendingar og athugasemdir við í þessum frumvarpsdrögum og ekki hefur verið orðið við. Mér finnst að menn hefðu mátt gefa sér meiri tíma til að ræða við þessa aðila, t.d. hafa fulltrúar Þroskahjálpar ekki komið á fund nefndarinnar fyrr en í morgun og ég hefði haft verulega gaman og gagn af því að ræða við þá og aðra fulltrúa fyrr til að geta skipst á skoðunum og reynt að vinna fylgi við tilteknar hugmyndir sem þeir bera fyrir brjósti. En það var bara aldrei gefinn kostur á því vegna þess að það var ætlun hæstv. félmrh. að keyra málið í gegn, hvað svo sem það kostaði. Fagleg umfjöllun í nefnd hefur ekki verið til staðar. Það er ekki hægt að tala um að það sem fram hefur farið í nefndinni standi undir nafni sem fagleg umfjöllun.
    Enn er t.d. afar lauslega tekið, svo ekki sé meira sagt, á málefnum Kópavogshælis. Ég held að menn hafi átt að gefa sér tíma til að fara yfir það mál. Frágangurinn á málinu af hálfu meiri hlutans er þannig að það er ekkert um það í frv. heldur einungis í nál. Ég spyr: Er mikið hald í því?
    Ég fer senn að ljúka máli mínu, virðulegur forseti. ( EgJ: Það eru góðar fréttir.) Ég heyri það að hv. 3. þm. Austurl. fagnar því. Minni hlutinn stendur að þeim brtt. sem nefndin flytur á þskj. 1024 og fagnar því að meiri hluti nefndarinnar hefur snúist til fylgis við afstöðu minni hlutans í 1. og 5. brtt. Auk tillagna á þskj. 1024 flytur minni hlutinn nokkrar brtt.
    Fyrir 1., 3. og 4. gr. hef ég þegar gert grein en í stuttu máli fjalla þær um stjórnarnefnd og hvernig hún skuli vera skipuð og hlutverk hennar varðandi Framkvæmdasjóð. Í annarri tillögu er ég með tillögu um að stjórnarnefndinni verði falið að úrskurða um ágreiningsatriði og í fimmtu tillögu legg ég til að ekki verði heimilt að ákvarða gjaldtöku vegna skammtímavistunar skv. 22. gr. frv. sem ég hef farið yfir áður í minni ræðu. Varðandi 6. gr. er ég með tillögu um ákvæði til bráðabirgða til þess að gæta réttinda og hagsmuna starfsfólks, rétt eins og þingmenn gera gjarnan við sambærilegar aðstæður í lagasetningu, eins og fyrir tveimur eða þremur dögum þegar ákveðið var að leggja niður ríkisskattanefnd og stofna þess í staðinn yfirskattanefnd. Þá var sett sérstakt ákvæði í lögin sem tryggði það að starfsmenn ríkisskattanefndar yrðu

starfsmenn yfirskattanefndar. Ég held það sé óhjákvæmilegt að hafa sambærilegt ákvæði í þessu tilviki líka.
    Virðulegur forseti. Ég vil svo ljúka máli mínu með því að lesa upp síðustu orðin í nefndarálitinu:
    ,,Minni hlutinn ítrekar fyrri skoðun sína að þörf sé á að vinna betur að frv. þessu og stefna beri að því að leggja fram á haustþingi endurskoðað frv. og er reiðubúinn að stuðla að því að svo geti orðið.
    Fari svo að frv. hljóti afgreiðslu á þessu þingi mun minni hlutinn styðja það þó annmarkar séu á frv. eins og bent hefur verið á.``
    Ég vænti þess að afstaða mín sé skýr. Ég mun ekki snúast gegn málinu þótt verið sé að reyna að troða því ofan í kokið á mér. Ég er fylgjandi því að lögin verði endurskoðuð. Mér er nokkuð umhugað um þennan málaflokk og mér er ekki sama hvernig menn vinna að lagasetningu í þessum málaflokki. Mér þykir sem hæstv. ráðherra hafi látið kappið hlaupa sér í kinn í þessu máli og forsjálnin skilin eftir kannski að einhverju leyti. Ég er fjarri því að vera sáttur við þennan gauragang í málinu síðustu dagana. Ég er ekki vanur því að vinna að viðamiklum málum, sem snerta hagsmuni þúsunda, á handahlaupum í hliðarherbergjum þar sem menn eru barðir niður til hlýðni við flokksagann.