Atvinnuleysistryggingar

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:01:46 (7082)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Mál það sem hér er tekið á dagskrá á ný var til umræðu fyrir nokkrum dögum. Annars er orðið svo með þetta þinghald að það er nokkuð erfitt að fylgjast með hvernig því vindur fram. Það er hlaupið á milli einstakra dagskrármála, umræðum frestað og ný mál tekin fyrir og málin síðan tekin fyrir aftur, sem þýðir að það er nokkuð erfitt á stundum að fylgjast með því hvað er yfirleitt um að vera í hv. Alþingi og hvaða mál það eru sem á að fjalla um og reyna að fá hér afgreidd áður en þinghaldi lýkur, sem var reyndar gert ráð fyrir að ætti að vera lokið, jafnvel á þessum tíma á þessum ágæta drottins degi.
    Frv. sem fjallar um atvinnuleysistryggingar er tengt nýgerðum kjarasamningum og er hluti af þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin hefur gefið aðilum vinnumarkaðarins um breytingar á þessari löggjöf. Ég ætla út af fyrir sig ekki að leggja stein í götu þess að frv. verði að lögum og því hægt að greiða fyrir þeim vilyrðum sem aðilum vinnumarkaðarins hafa verið gefin varðandi nýgerða kjarasamninga. En umræðurnar, eins og þær hafa verið varðandi málið og reyndar ýmis önnur mál sem hér hafa verið til meðferðar í þinginu á seinustu sólarhringum, eru þess eðlis að ástæða er til þess að fara um þær nokkrum orðum og reyndar að ræða í tengslum við frv. ofurlítið um það ástand sem er nú í okkar ágæta þjóðfélagi.
    Mál þetta lýtur auðvitað að því að aðilar vinnumarkaðarins óttast að atvinnuleysi fari vaxandi sem og spár gera ráð fyrir líka og staðreyndir síðustu vikna og mánaða segja okkur til um hvernig ástandið hefur þróast. Þá er von að þeir sem njóta eiga atvinnuleysistrygginganna vilji tryggja sig betur fyrir þeirri þróun.
    Það hlýtur að vera áhyggjuefni öllum að atvinnuleysi skuli vera vaxandi og með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli ekki grípa meira inn í þá þróun mála og beita til þess öllum ráðum að koma í veg fyrir þá þróun. Okkur virðist a.m.k. á stundum séu aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar algjörlega í öfuga átt og það sem gert er, t.d. stórauknar skattaálögur ríkisvaldsins, leiða auðvitað til hins gagnstæða. Kannski er það einnig hluti af stefnu þessarar ríkisstjórnar, þ.e. þeirri efnahagsstefnu að gjaldþrotin eigi að hreinsa til í atvinnulífinu og eigi að vera sá elexír eða sú aðgerð sem hreinsar til og gefur einhverjum ákveðnum aðilum færi á að stokka upp í atvinnulífinu. Það eru auðvitað þeir stóru og sterku, sem hafa mestu fjármunina, sem mundu njóta og hljóta að njóta slíkrar þróunar og svo einnig hitt sem er enn alvarlegra, það er að viðhalda ákveðnu atvinnuleysisstigi. Við vitum að það hefur verið þekkt efnahagsaðgerð í sumum nágrannalöndum um árabil að viðhalda ákveðnu atvinnuleysi og þar er það aðferð til að halda niðri verðbólgu og halda efnahagslífinu í skefjum. Við höfum hins vegar ekki viljað sætta okkur við það hér að sú aðgerð væri viðurkennd en nú virðast nýir siðir hafa komið með nýjum herrum og ekki hægt að sjá annað en það sé sú aðferð sem núv. hæstv. ríkisstjórn vill viðhafa og hennar stuðningsmenn.
    Ég leyfi mér að álíta að verulega fjármuni hljóti að vanta í Atvinnuleysistryggingasjóð og væri auðvitað nauðsynlegt að fá upplýsingar um það hvernig sú þróun verður á þessu ári þegar fram líða stundir. Ég býst við því að það sé nauðsynlegt að fá hæstv. fjmrh. til þess að svara því hvað honum sýnist um það og e.t.v. var það það sem hv. þm., sem var á mælendaskrá á undan mér, hafði hugsað sér að spyrjast fyrir um. Ég kom því miður aðeins of seint til umræðunnar í þingsal og heyrði því ekki --- en var það ekki svo, hv. þm., að óskað væri eftir viðveru hæstv. fjmrh.? Þingmaðurinn kinkar kolli við þeirri spurningu minni. Ég tek auðvitað undir þá ósk hans að eðlilegt sé að ráðherrar fylgist með þessari umræðu, þeir sem málið varðar, hæstv. félmrh. reyndar einnig. Við fáum að heyra þeirra álit á því hvert stefnir og hver þróunin er.
    Þegar fjárlagafrv. var lagt fram á haustdögum var gert ráð fyrir því að ríkisframlagið þyrfti ekki að vera nema 1 milljarður 180 millj. kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs og var þá m.a. gert ráð fyrir því að endurskoða bótaréttinn þannig að það drægi úr þörfinni fyrir framlag til sjóðsins og svo jafnframt að draga úr rekstrarkostnaði sjóðsins.
    Í meðförum fjárln. á fjárlagafrv. var reyndar samþykkt nokkur hækkun á þessu framlagi svo upphæðin var, ef ég man rétt, 150 millj. kr. hærri þegar fjárlögin voru endanlega samþykkt. Nú er auðvitað ljóst að sú upphæð dugar engan veginn og þá er nauðsynlegt að vita hvað mikið þarf til þess að standa við þau fyrirheit sem hér er verið að gefa og taka mið af þeirri þróun sem við blasir í fjárútgjöldum þessa sjóðs þegar þróun atvinnuleysisins er slík sem raun ber vitni.

    Það hafa reyndar fleiri áhyggjur af þessari þróun en stjórnarandstæðingarnir í hv. þingi og þeir aðilar vinnumarkaðarins sem hafa verið að knýja á um aðgerðir til úrbóta af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þær áhyggjur lýsa sér auðvitað í skrifum dagblaðanna sem hafa þó, a.m.k. stundum, verið talin nokkuð hliðholl ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum. Þó að hæstv. menntmrh. afneitaði öllum stuðningi Morgunblaðsins við ríkisstjórnina og Sjálfstfl. í umræðum hér á dögunum vitum við auðvitað að Morgunblaðið er þrátt fyrir allt það málgagn sem ríkisstjórnin styðst helst við. Morgunblaðið hefur í gegnum tíðina stutt við bakið á Sjálfstfl. En nú kveður við þann tón í Morgunblaðinu að menn reka upp stór augu. Í leiðara blaðsins 16. maí sl., sem ber yfirskriftina Atvinnuástandið, er einmitt varað við þeirri þróun sem hæstv. ríkisstjórn hefur uppi. Ég held að full ástæða sé til þess að þær aðvaranir sem Morgunblaðið setur hér fram komist inn í þingsali. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Atvinnuleysi er alvarlegt þjóðfélagsvandamál sem við höfum lítið kynnst á undanförnum áratugum. Sumir telja að ,,hæfilegt`` atvinnuleysi sé æskilegt. Þeir hinir sömu hafa væntanlega ekki kynnst því af eigin raun og telja sig ekki munu kynnast því. Áhrif atvinnuleysis geta m.a. orðið þau að fólk gefst upp við að leita að vinnu. Svo neikvæð áhrif hefur það á sálarlíf þess að koma aftur og aftur að lokuðum dyrum, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Sennilega er atvinnuleysi meira hér en fram kemur í þessum tölum`` --- sem áður var búið að gera grein fyrir fyrr í leiðaranum og ég eyði ekki tíma í að lesa upp. --- ,,Líklega er töluvert af fólki sem hefur ekki skráð sig atvinnulaust þótt það vanti vinnu. Ástæðurnar fyrir því geta verið margvíslegar og persónulegar.``
    Hér er einmitt drepið á það sem ég var að ræða um áðan, þetta ,,hæfilega atvinnuleysi`` sem sumir stjórnmálaforingjar virðast hafa talið að væri réttlætanlegt til þess að búa við ákveðna þróun eða stöðu í efnahagsmálunum, a.m.k. höfum við sumir stjórnmálamenn á Íslandi ekki viljað viðurkenna það hingað til. En eins og ég nefndi áðan, þá virðist þróunin vera í aðra átt þessi missirin. Það er sannarlega áhyggjuefni að svo skuli vera. Mig langar til að vitna aftur í þennan leiðara Morgunblaðsins, með leyfi forseta, þar sem segir:
    ,,Atvinnuleysi hefur verið mikið böl í ríkjum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku á undanförnum árum og raunar síðasta áratug. Atvinnuleysi hefur ekki síst verið áberandi hjá æskufólki sem hefur átt afar erfitt með að finna vinnu. Afleiðingarnar geta í mörgum tilvikum verið hroðalegar. Atvinnuleysi leiðir til sinnuleysis og vonleysis sem aftur leiðir til þess að fólk leitar í áfengi og önnur fíkniefni. Afleiðingar aukinnar fíkniefnaneyslu blasa við okkur nær daglega í hörmulegum slysum og sorglegum atburðum þar sem fíkniefni hafa komið við sögu. Við verðum að snúast til varnar gegn slíku þjóðfélagsástandi.`` Ég ætla að leyfa mér að endurtaka þessa tilvitnun í leiðara Morgunblaðsins frá 16. maí sl.: ,,Við verðum að snúast til varnar gegn slíku þjóðfélagsástandi.``
    Þetta finnst mér svo alvarlegt mál sem hér er tekið upp og alvarleg ábending til stjórnvalda að það verður ekki fram hjá því horft. Hér er bent á ástandið í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, ríki sem hafa a.m.k. af ýmsum verið talin til fyrirmyndar og rétt að sækja þangað fyrirmynd að því þjóðfélagi sem við viljum byggja upp hér og búa við. Auðvitað er margt gott um það að segja en þar er líka ýmis vandamál við að fást og ýmislegt að varast í þróun þessara þjóðfélaga. Á það hefur einnig verið bent í leiðurum og helgarpistlum þessara blaða sem hafa þó að undanförnu oftar en ekki stutt ríkisstjórnina og þó kannski einkum Sjálfstfl. Þetta á bæði við um Morgunblaðið og DV.
    Ég vil, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til að láta þessi sjónarmið mín og kannski aðvörunarorð koma fram í þessum umræðum þegar við erum að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þótt ég ítreki það sem ég sagði áðan að ég ætla ekki að leggja stein í götu frv. sem hér er til meðhöndlunar. Ég taldi nauðsynlegt að áhyggjur mínar kæmu hér fram. Ég vonast til þess og vænti þess að hæstv. ríkisstjórn, ráðherrar hennar og stuðningsmenn, hv. þingmenn, taki þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar og hugleiði vandamálin með öðru hugarfari en mér finnst þeir hafa gert að undanförnu. Svo alvarlegt held ég að ástandið sé að verða og augu fleiri og fleiri aðila í þjóðfélaginu séu að opnast fyrir því.
    Mig langar aðeins að lokum, virðulegi forseti, að fara örfáum orðum um annað frv. sem er á dagskrá þessa þingfundar vegna þess að það var aðeins dregið inn í umræðuna síðast þegar þetta dagskrármál var til umræðu. Það fjallar um frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði o.fl.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson benti á það að það kynni að fara svo, ef frv. yrði að lögum eins og það lítur út, að nú væri þegar verið að stefna í hættu því markmiði sem þar er sett fram, að greiða ekki fé út úr ríkissjóði umfram það sem fjárlög leyfa eða heimila á hverjum tíma. Ég er auðvitað algjörlega sammála honum hvað það varðar og tel að þá væri illa af stað farið með þau markmið sem eru sett fram í frv. Hann benti að vísu einnig á að nú hefur verið lögð fram brtt. af hálfu fjárln., sem reyndar flytur frv., um gildistöku frv. og taldi það að einhverju leyti tengjast t.d. þessu frv. sem hér er nú til umræðu um atvinnuleysistryggingar og kannski öðrum þeim verkefnum eða þeim viðfangsefnum sem hæstv. ríkisstjórn hefur við að glíma á næstu vikum og mánuðum. Því hefði ekki verið talið eðlilegt eða réttlætanlegt að frv. öðlaðist gildi nú þegar, ef það verður samþykkt á þessum lokaklukkustundum þingsins, og því hefði gildistakan verið ákveðin 1. jan. Ég vil aðeins segja það, af því að ég er flm. að frv. og flm. að þessari brtt., að ég tel það mjög eðlilegt að frv. af þessu tagi eða lög af þessu tagi, taki gildi á áramótum vegna þess að ég hef áður lýst því í umræðum um frv., þegar það var áður til umfjöllunar í þinginu, að við þyrftum

við gerð fjárlagafrv. að taka mið af því við hvaða lög við búum að öðru leyti. Fjárlagafrumvarpsvinnan, undirbúningur fjárlaga, á komandi árum þyrfti að taka breytingum og taka mið af því að við búum við eða ætlum að haga okkur öðruvísi en við höfum gert hingað til. Þó beitti hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sér fyrir mikilvægum breytingum hvað varðar meðferð ríkisfjármála meðan hann sat í stóli hæstv. fjmrh., m.a. með því að flytja inn í þingið fjáraukalög, oftar en áður hafði verið gert, og með því að reyna að draga úr því valdi sem fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn var talin hafa til að ákveða aukafjárveitingar.
    Ég ætla ekki að orðlengja um það mál heldur vil ég aðeins láta það sjónarmið mitt koma hér fram að ég tel þá breytingu, sem lögð hefur verið fram á því frv., eðlilega í ljósi þess að þeir sem eiga að vinna með fjárlög verða að vita það hver þeirra réttindi og skyldur eru þegar fjárlagafrv. er samið og undirbúið og þegar fjárlög eru samþykkt.
    Ég ætla ekki að orðlengja frekar um frv. sem er nú til umræðu, hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. komi hér og geri okkur grein fyrir því hverjar horfur eru á þörf fyrir fjárveitingar til Atvinnuleysistryggingasjóðsins á komandi sumri og hausti miðað við þessi auknu verkefni sem er verið að fela sjóðnum og miðað við þá alvarlegu þróun sem við okkur blasir varðandi atvinnustig og atvinnuástand.