Atvinnuleysistryggingar

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:36:06 (7084)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er örstutt andsvar. Ég ætla ekki að bera brigður á talnafróðleik þann sem kom fram í máli hv. ræðumanns. Að sjálfsögðu getum við ekki á þessari stundu sagt nákvæmlega fyrir um það hvert atvinnuleysisstigið verður í ár, hvort það verður nær fyrri spám eða síðari spám Þjóðhagsstofnunar en við getum verið við hinu versta búin. Reyndar kemur þar á móti sú ráðstöfun að greiða út úr Verðjöfnunarsjóði sem talið er að geti dregið úr atvinnuleysisstiginu, a.m.k. eins og því var spáð í síðari spá Þjóðhagsstofnunar.
    Það er rétt hjá hv. þm. að svo kynni að fara að það skorti greiðslurými í sjóðnum fyrir 600--650 millj. kr. miðað við verstu spár.
    Það er líka rétt, sem kom fram hjá honum, að sjóðurinn á verulegar eignir sem hægt er að grípa til og jafnvel þótt um verði að ræða einhver afföll verður sjóðurinn auðvitað eins og aðrir eigendur að sætta sig við þau.
    Það sem skiptir þó mestu máli nú er að átta sig á því að það þarf ekki að gera ráð fyrir því að grípa verði til einhverra örþrifaráða í sumar vegna þess að gera má ráð fyrir að sumarmánuðirnir séu betri hvað atvinnustig snertir en aðrir tímar ársins. Þess vegna sé hægt að taka málið aftur upp í haust. Dugi það ekki til verður að sjálfsögðu gripið til láns innan ársins eins og oft hefur verið gert hjá ríkissjóði og ég tel að ekki sé ástæða til að halda að ríkisstjórnin standi ekki að baki þessum sjóði.
    Um skerðingu á bótarétti ætla ég ekki að fjalla hérna. Það stóð til og óþarfi að blanda því inn í þessar umræður. Ég minni einnig á að verkalýðsfélögin taka gjöld af atvinnuleysisbótum sem er auðvitað umhugsunarvirði, sérstaklega við þær aðstæður sem við lifum nú.
    Loks vil ég segja að það gefst tími til þess í fjáraukalagafrv. sem tekið verður fyrir í haust, að fjalla um þetta mál og gera þær ráðstafanir sem þarf auk annarra mála sem tilheyra kjarasamningum og vitað er að munu hafa útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð.