Atvinnuleysistryggingar

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:42:42 (7087)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það skal ekki verða langt svar við þessari örstuttu ræðu hv. þm. Hann spyr hvort nauðsynlegt sé að flytja fjáraukalagafrv. á ágústþingi. Það hefur að sjálfsögðu ekkert verið ákveðið um það. Eins og kom fram í máli mínu fyrr þá þarf ekki að gera ráð fyrir því að vegna þessa tiltekna máls, sem hér er til umræðu, þurfi að grípa til fjáraukalagafrv. í ágúst. Það er einnig alþekkt, eins og ég veit að hv. þm. þekkir úr sinni ráðherratíð sem fjmrh. að innan ársins hefur oft verið gripið til eins konar greiðslumiðlunar. Það er þannig að tekjur og gjöld standast ekki á og stundum er vitað að útgjöldin koma á fyrri hluta ársins en tekjurnar frekar síðari hluta ársins. Í þessu tilviki sé ég ekki annað en auðvelt sé að brúa bil ef verður þar til þing kemur saman í haust.
    Með þessu er ég þó ekki að halda því fram að útilokað sé að flytja fjáraukalagafrv. af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrr en engin ákvörðun hefur verið tekin um það enn.