Greiðslukortastarfsemi

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:47:05 (7090)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason ):
    Herra forseti. Efh.- og viðskn. fékk til umfjöllunar frv. til laga um greiðslukortastarfsemi og ræddi það á allmörgum fundum. Fékk hún á sinn fund Sigurð Hafstein, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sparisjóða, Jóhann Ágústsson aðstoðarbankastjóra, sem kom fyrir hönd Sambands íslenskra viðskiptabanka, Tryggva Pálsson, formann stjórnar Kreditkorta hf., Gunnar Bæringsson, framkvæmdastjóra Kreditkorta hf., Einar S. Einarsson, forstjóra VISA-Ísland Greiðslumiðlunar hf., og auk þess kom ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins, Björn Friðfinnson, á fund nefndarinnar. Umsagnir bárust frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og þeim aðilum öðrum sem ég taldi upp.
    Nefndin ræddi þær umsagnir og athugasemdir sem fram komu og var sjáanlegt að það hefði þurft að gera veigamiklar breytingar á frv. en til þess vannst ekki tími. Hér hefur verið lagt fram frv. til samkeppnislaga sem verður endurflutt á komandi hausti og það er álit efh.- viðskn. nefndar að rétt sé að taka upp í það frv. heimild til setningar reglna um greiðslukortastarfsemi og þar verði tryggður hagur neytenda hér á landi og hann verði ekki lakari en í slíkum viðskiptum sem almennt gerast hjá öðrum ríkjum í hinu fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæði.
    Það er aðeins eitt land sem hefur sett lög um greiðslukortastarfsemi sem vitað er um, þ.e. Danmörk. Hér hafa þessi viðskipti þróast á undanförnum árum og undir vissum kringumstæðum er rétt að setja slíkar reglur og það er skoðun okkar að það fari betur á því að þessar reglur komi inn í frv. til samkeppnislaga þar sem tryggður er hagur neytenda heldur en að setja viðamikla sérlöggjöf um þessa starfsemi.
    Af þessari ástæðu leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnar með ósk um að meginefni þess verði fellt inn í samkeppnislagafrumvarpið. Um það verður fjallað á næsta þingi og væntanlega verður afgreidd sú mikilvæga löggjöf sem hefur þegar séð dagsins ljós í frumvarpsformi en þarf þó góðrar yfirlegu við því ýmislegt má betur fara. Ég tel að ég geti leyft mér persónulega að segja það að mér lýst að mörgu leyti mjög vel á það frv. sem lagt var fram þó það þurfi að gera á því nokkrar breytingar og lagfæringar undir meðferð málsins á næsta þingi.
    Undir þetta álit rita allir nefndarmenn í efh.- og viðskn.