Greiðslukortastarfsemi

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:58:59 (7094)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Það er rétt sem fram hefur komið að það er allóvenjulegt að heil nefnd vísi máli frá ríkisstjórninni aftur til hennar en það á sér ýmsar skýringar og ég tel rétt að það komi fram hvers vegna við í stjórnarandstöðunni stöndum að þessu máli, alla vega ég sem fulltrúi Kvennalistans. Þarna er vissulega um neytendamál að ræða, mál sem snertir allan almenning í landinu. En sannleikurinn er nú sá að á þeim stutta tíma sem okkur gafst að skoða þetta frv. kom í ljós að það var býsna gallað. Og ég vil nefna þetta sem dæmi um flumbrugang í lagasetningu hér á Alþingi.
    Í þessu frv. er m.a. fjallað um hlutverk Verðlagsráðs en á sama tíma erum við með til meðferðar eða umræðu í þinginu annað frv., frv. til samkeppnislaga, þar sem lagt er til að þetta sama Verðlagsráð verði lagt niður og hlutverki þess breytt og því gefið annað nafn. Það var því alveg augljóst mál að þetta frv. þarfnaðist verulegrar skoðunar. Það er greinilegt að þeim, sem standa að bankakerfinu og eru þar með eigendur greiðslukortafyrirtækjanna, var mjög í nöp við þessa löggjöf, töldu hana meingallaða, en allir þeir sem horfðu á málið frá hinni hliðinni, frá hlið neytenda, mæltu með frv., þ.e. samtök launafólks, neytendasamtök og fleiri. En niðurstaðan varð sú að þetta frv. væri gallað og hefði þurft nokkra endurskoðun. Til þess reyndist ekki tími og því töldum við að það væri besta lausnin að senda það aftur til ríkisstjórnarinnar þannig að það mætti vinna það betur.