Greiðslukortastarfsemi

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 18:01:13 (7095)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð af minni hálfu til að fylgja úr hlaði minni afstöðu í þessu máli. Ég styð það eins og nefndarmenn aðrir að þetta ágæta frv. fari til föðurhúsanna um skeið og taki þar þroska í föðurgarði á nýjan leik.
    Það er rétt að taka það fram, að öllu gamni slepptu, að í þessu felst ekki af okkar hálfu, a.m.k. ekki af minni hálfu nein höfnun að öllu leyti á efni frv. Ég er og hef verið þeirrar skoðunar að það sé þörf á því að taka á ákveðnum þáttum sem snúa að réttarstöðu neytendanna sérstaklega og um það eru menn almennt sammála og þess vegna er í það vitnað í nál. Hins vegar eru ýmis önnur ákvæði frv. sem orka tvímælis og eru sum hver bersýnilega úrelt og vinnubrögðin við það kannski ekki alveg eins og maður hefði átt von á og höfundar hefðu mátt fara yfir þetta á nýjan leik, held ég, og reyna að færa það betur að nútímanum. Þannig er t.d. ljóst að kortafyrirtækin sjálf hafa hrint í framkvæmd ýmsum úrbótum á þessu sviði sem höfundar frv. virðast ekki hafa frétt af. Það er auðvitað skaðleg sambandsleysi í okkar litla þjóðfélagi.
    Nefndarmenn urðu sammála um, sem er að sönnu nokkuð óvenjulegt, að vísa stjfrv. aftur til ríkisstjórnarinnar en það á sér sem sagt þessar skýringar að við væntum að ákvæði þess líti þá að einhverju leyti dagsins ljós í nýjum og bættum búningi, helst strax á næsta þingi og þá væntanlega sem kafli í eða hluti af nýju frv. til samkeppnislaga.
    Ég veit ekki annað, herra forseti, en um þetta hafi tekist allvíðtæk samstaða hér í þinginu. Mér er þó ljúft að upplýsa hér að það var formanni þingflokks Alþfl. nokkuð þungbært að taka við þessari niðurstöðu en ég átti með honum langa fundi í gær og í fyrradag og sannfærði hann um að þetta væri málinu fyrir bestu.