Greiðslukortastarfsemi

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 18:03:41 (7096)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Mér er nú næstum hlátur í hug. Það vill svo til að fáir hafa þrasað meira í því hér á hinu háa Alþingi að lögfest yrðu ákvæði um notkun greiðslukorta en ég. Ég bar fram fsp. 11. mars 1980 og þá sagði þáv. hæstv. viðskrh. að þess yrði ekki langt að bíða að slíkt frv. kæmi fram. Síðan bar ég enn fram fyrirspurn 1984 og þá sannfærði mig þáv. hæstv. viðskrh. að nú væri þetta alveg að koma.
    Ég hafði áhyggjur af því þá að notkun þessara korta, sem engin lög væru fyrir í landinu, yrðu til þess að hækka vöruverð og þetta yrði baggi á fjölskyldum landsins sem nú hefðu fundið sér enn eina leið til að versla fyrir peninga sem menn ekki ættu. Ég held ekki verði um það deilt að sú hefur einmitt orðið raunin. Ég stóð því upp og hrósaði hæstv. núv. viðskrh. þegar hann birtist með þetta frv. á 113. löggjafarþingi sem þá varð ekki útrætt og síðan aftur nú. Ég lýsi furðu minni á að nú stöndum við frammi

fyrir því að málið sé sent til ríkisstjórnarinnar. Þetta er auðvitað með öllu óskiljanlegt. Það hafa gefist tíu ár til að semja brúklegt lagafrv. um notkun greiðslukorta en viðskipti með slík kort skipta hundruðum milljóna eða milljarða og eru einn stærsti þátturinn í efnahagslífi Íslendinga og að þingið skuli gefast upp við þetta nú, 10 árum seinna, það er með öllu óskiljanlegt. Þetta vildi ég bara láta koma fram.