Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 18:55:41 (7105)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, á sér okkuð sérkennilegan aðdraganda en þannig háttar til að hæstv. ríkisstjórn gaf fyrirheit um það við frágang kjarasamninganna að lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota yrði breytt. Það bólaði ekkert á efndum þessa fyrirheits og er bersýnilegt að hæstv. ríkisstjórn hafði ekki hugsað sér að efna það. --- Mér þætti betra, herra forseti, ef hæstv. félmrh. léti nú svo lítið að vera viðstödd umræðuna án þess að ég sé að gera mjög stífar kröfur í þeim efnum. Ef hún er í húsinu hvort eð er væri svo sem ekkert verra að geta spjallað við hana smástund.
    Það sem liggur fyrir er að hæstv. ríkisstjórn hafði ekki hugsað sér að efna þetta fyrirheit um að breyta lögunum um ábyrgðasjóð launa. Hún hafði velt því fyrir sér að leysa þetta mál með setningu reglugerðar og ég tel satt að segja að það sé með ólíkindum að mönnum skuli koma til hugar að leysa mál af þessu tagi með setningu reglugerðar, ósköp einfaldlega vegna þess að hér er um að ræða svið kröfuréttarins sem auðvitað verður ekki varið né sótt nema á grundvelli laga. Það er því algerlega útilokað að breyta ákvæðum um ábyrgðasjóð launa öðruvísi en með lögum vegna þess líka að ríkisstjórnin hafði ákveðið síðasta vetur að fella kröfurétt lífeyrissjóðanna út að því er þetta mál varðar.
    Það er með ólíkindum að mál skuli bera að með þeim hætti hér á hv. Alþingi að stjórnarandstaðan skuli þurfa að slíta þau út úr hæstv. ríkisstjórn svo að segja með töngum. Stjórnarandstaðan fékk ekki að sjá þau frumvarpsdrög sem eru stofninn að þessu frv. fyrr en um miðnætti í gærkvöld að mig minnir eða einhvern tíma sl. nótt. Það var strax afstaða mín sem starfandi formanns þingflokks Alþb. að við mundum auðvitað gera það sem við gætum til að greiða fyrir málinu og afgreiðslu þess. Ríkisstjórnin kaus hins vegar að útbúa málið með þeim hætti að í því felst ekki aðeins það að menn séu að breyta lífeyrisþætti laganna heldur er frv. þannig útbúið að verið er að taka öll lögin upp og sá sem styður lögin sé þar með að styðja afnám ríkisábyrgðar á launum af því að það er það sem er um að ræða, það er verið að fella niður ábyrgð ríkissjóðs á launum við gjaldþrot. Það var sú breyting sem átti sér stað með bandorminum í vetur og í staðinn var ákveðið að leggja sérstakt 0,2% gjald á til þess að standa undir þessum ábyrgðasjóði.
    Við stjórnarandstæðingar lögðumst gegn þessari breytingu. Við töldum að ríkisábyrgð á launum ætti að fá að halda sér eins og hún var þegar hún var sett í lög að frumkvæði Björns Jónssonar, þáv. félmrh., árið 1973.
    Þegar þetta mál var til meðferðar í vetur fluttu hv. stjórnarandstæðingar í hv. efh.- og viðskn. tillögu um og lögðu á það áherslu, a.m.k. í málflutningi sínum, að lífeyrisþátturinn og kröfur vegna lífeyris yrðu hluti af þessu ábyrgðakerfi. Ég minnist þess sjálfur að ég átti ítarlegar viðræður úr þessum ræðustól við hæstv. félmrh. um að það mundi ekki taka nema augnablik að ná samkomulagi við verkalýðshreyfinguna um lausn á þessu máli, ekki nema augnablik. Ég skoraði á hæstv. félmrh. að hefja þær viðræður til að koma í veg fyrir að bandormurinn yrði að þessu leyti afgreiddur í stríði við verkalýðshreyfinguna. Hæstv. félmrh. vildi ekki fara í þær eðlilegu viðræður við verkalýðshreyfinguna. Í staðinn varð verkalýðshreyfingin að beita afli samtaka sinna til þess að beygja ríkisstjórnina til undanhalds í þessu máli. Það dugði því miður ekki betur en svo að ríkisstjórnin ætlaði sér samt sem áður að þráast við að breyta lögunum og hugðist gera það með reglugerð.
    Þetta mál, virðulegi forseti, er þriðja málið á dagskrá þessa fundar í dag þar sem um er að ræða frumvörp sem eru enn þá fyrirheit um kjarasamningana. Þar er að ræða bæði frumvörpin um atvinnuleysistryggingasjóð sem hafa verið rædd hér upp í dag og svo þetta frv. um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Það er augljóst mál að meginávinningur verkalýðshreyfingarinnar í þeim kjarasamningum sem nýlega hafa gengið yfir er fyrst og fremst fólginn í því að verkalýðshreyfingunni tókst að stöðva áform sem uppi voru um að lækka atvinnuleysisbætur og skerða þær og um að veikja mjög ábyrgð á launum við gjaldþrot.
    Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að alger samstaða mun vera um þetta mál á milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands og ég tel að það sé mjög mikilvægt. Þar með felst í þessu máli, eins og það liggur fyrir, kjarasamningur eða hluti af kjarasamningi. Þó svo að ýmsir þættir í þessu

máli séu þannig að það sé verið að láta ganga aftur vissa parta úr bandorminum munum við alþýðubandalagsmenn gera það sem við getum til að flýta þessu máli og leggja áherslu á að það verði staðið við kjarasamninga.
    Við teljum að það sé mjög nauðsynlegt einnig, virðulegi forseti, að ganga tryggilega frá því að ekki einasta verði þingi lokið með því að þetta mál verði afgreitt heldur verði líka gengið tryggilega frá því að reglugerð um niðurfellingu lyfja- og heilsugæslukostnaðar til barna sem eru sex ára og yngri og er líka hluti kjarasamninga verði gefin út. Ég tel það til marks um sleifarlag að sú reglugerð skuli ekki vera komin út fyrir löngu. Ég er sannfærður um að það er aðeins hálfrar stundar verk eða svo að ganga frá þeirri reglugerð tæknilega. Mér er tjáð að heilbrrn. hafi uppi áætlanir um að ganga frá reglugerðinni þannig að hún taki gildi um næstu mánaðamót. Hæstv. umhvrh., sem er starfandi heilbrh.- og trmrh., hefur kallað hingað til þinghússins aðstoðarmann heilbrrh. sem hefur lýst sig reiðubúinn til að ræða við þá þingmenn, sem um þetta mál vilja fjalla, og það mál sem snýr sérstaklega að þessum börnum, sex ára og yngri, og er bersýnilega málefni heilbrrn. Ég teldi æskilegt að fulltrúar sem flestra flokka í hv. heilbr.- og trn. eða í grennd við hana komi að þeim viðræðum. A.m.k. geri ég ráð fyrir því að fulltrúar minni hlutans hafi áhuga á því að taka þátt í slíkum viðræðum.
    Það er athyglisvert, virðulegi forseti, að þegar þessi umræða fer fram um það að efna kjarasamninga, skuli hæstv. forsrh. ekki láta sjá sig í salnum. Ég ætla ekki að kalla hingað inn. En ég tel að fjarvera hans staðfesti ákaflega vel þá takmörkuðu virðingu sem mér finnst að niðurstöðum kjarasamninganna sé sýnd af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er sérkennilegt að standa frammi fyrir því að það er stjórnarandstaðan sem þarf að slíta út mál frá ríkisstjórninni til að staðið verði tryggilega við kjarasamninga.
    Ég endurtek að við alþýðubandalagsmenn munum greiða fyrir því að frv. verði að lögum. Við erum andvíg kerfisbreytingunni, sem ákveðin var í vetur, en það eru engar tillögur uppi um að breyta henni hér. Þar sem í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að taka lífeyrisiðgjöldin inn og sérstakur kafli, III. kafli frv., fjallar um lífeyrisþáttinn sérstaklega, þá er ljóst að það eru þættir málsins sem við getum stutt fyrir okkar leyti og greitt fyrir framgangi málsins þó að ábyrgðasjóðskerfið sé okkur ekki að skapi og við teljum enga ástæðu til þess að vera að létta undir með því.