Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:05:07 (7106)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rangt sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns að ríkisstjórnin hafi ekki ætlað að efna fyrirheit í kjarasamningum um að réttur til greiðslu launa og lífeyris við gjaldþrot yrði færður til samræmis við þær hugmyndir sem aðilar vinnumarkaðarins kynntu ríkisstjórninni.
    Frv., sem varð að lögum fyrir stuttu um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1992, kvað á um lágmarksréttindi fólks til greiðslu launa og lífeyris við gjaldþrot. Þar var jafnframt kveðið á um að ráðherra gæti ákveðið með reglugerð hvaða vinnulaunakröfur og hversu háar, sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum, njóti ábyrgðar sjóðsins. Það var mat lögfræðinga, sem um þetta mál fjölluðu, að sá réttur til greiðslu launa og lífeyris við gjaldþrot, sem aðilar vinnumarkaðarins lögðu áherslu á, rúmaðist innan ramma reglugerðarinnar.