Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:11:29 (7111)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta fjallar um breytingar á lögum um ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota eins og þau voru samþykkt með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 eða eins og þau voru afgreidd frá Alþingi 23. jan. sl.
    Stjórnarandstaðan lýsti sig þá algjörlega andvíga þeirri lagasetningu og tók með því undir hörð mótmæli aðila vinnumarkaðarins. Áður en gengið var frá kjarasamningum knúðu aðilar vinnumarkaðarins ríkisstjórnina til að gefa fyrirheit um að draga til baka nokkur ranglát ákvæði í þeirri lagasetningu, þar á meðal um ábyrgðasjóð launa.
    Með þessu frv., sem við erum að ræða, er verið að standa við þau fyrirheit þó að athyglisvert sé að ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að flytja frv. heldur hefur fengið nokkra þingmenn úr stjórnarflokkunum til þess. Með þeim breytingum sem felast í frv. er viðurkenndur réttur lífeyrissjóða til vangreiddra lífeyrisgjalda og nokkur fleiri jákvæð atriði. Þetta er að sjálfsögðu gott að ríkisstjórnin hefur verið knúin til að leiðrétta nokkur afglöp sín. Engu að síður telur stjórnarandstaðan að ríkisstjórnin verði þar að bera ábyrgð.
    Í frv. eru enn mörg atriði sem þingflokkar stjórnarandstöðunnar lýstu sig algjörlega andvíga og vísa þar til umræðna og nál. um bandorminn. Tími til nefndarstarfa hefur líka enginn verið þar sem ríkisstjórnin dró fram á síðasta áætlaða fundardag Alþingis að koma þessu frv. á framfæri.
    Minni hluti félmn. telur eðlilegt að ríkisstjórnin flytji þetta mál fram en ekki félmn. en mun ekki standa í vegi fyrir því að frv. verði að lögum og mun greiða fyrir því á allan hátt að hægt sé að standa við ákvæði kjarasamninga.