Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:18:30 (7114)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af orðum síðasta ræðumanns nefni ég að í núgildandi lögum um ábyrgðasjóð launa er ábyrgð á skyldusparnaði þannig að engin breyting verður þar á miðað við það frv. sem hér liggur fyrir.
    Út af þeim orðum sem hér hafa fallið um að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að flytja þetta frv. þá er það rangt. Þetta var gert til hægðarauka og um það rætt við aðila vinnumarkaðarins að félmn. mundi flytja þetta mál með líkum hætti og var gert við frv. um Atvinnuleysistryggingasjóð sem var liður í kjarasamningum. Það mál flutti heilbr.- og trn. Hér er því nákvæmlega eins að farið þó að minni hluti félmn. hafi ekki treyst sér til að fylgja meiri hlutanum í því að fylgja þessu máli eftir inn í þingið.