Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:22:48 (7117)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir svar hennar. Það staðfestir að ekkert var rætt við félmn. fyrr en í gærkvöldi. Það staðfestir að málið var ekkert undirbúið af hálfu hæstv. félmrh. Það staðfestir það sem ég taldi mig muna rétt frá fundinum að aðilar vinnumarkaðarins sögðu í morgun að það hefði legið ljóst fyrir strax við samningsgerð að lagabreytingu þyrfti. Það er því alveg ljóst hvernig svo sem menn skoða þetta mál að öll spjóta standa á hæstv. félmrh., varaformanni Alþfl., á því hvers vegna málið er svona seint fram komið. Það virðist vera, virðulegi forseti, að ráðherrann hafi ekki viljað leggja málið fram og efna kjarasamninga.