Skattskylda innlánsstofnana

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:55:40 (7126)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er kannski ekki stund, þótt staðurinn sé réttur, að ræða um grundvallaratriði við 3. umr. þessa máls. Það er oft þannig í pólitíkinni að það vill þvælast fyrir mönnum að sjá samhengi hlutanna. Ég hef aðeins verið að reyna að átta mig á samhenginu í þessu máli hjá hv. þm. sjálfum sem lagði málið fram. Ég hef ekki enn þá fengið fullnaðarskýringar í sjálfu sér hvað það var sem varð til að hann breytti um skoðun á því, jafnvel þó að hann segi að frv. hafi þá þegar lagast verulega frá því sem það var þegar hann lagði það fyrst fram. Maður hefði haldið að jafníhugull og grandvar maður og hv. flm. sem leggur fram frv. af þessu tagi sem fjmrh., horfir síðan framan í það í annað sinn og viðurkennir að það hefur stórlega verið betrumbætt, færi nú nær um að rétt væri að hann styddi frv., þennan króga, eins og hann orðaði það, sem hefði ekki á sínum tíma verið á vetur setjandi. Hann hefði verulega braggast samkvæmt því sem hv. þm. segir sjálfur. Því skil ég ekki alveg það samhengi hlutanna að hann skuli ekki vilja styðja málið.
    Varðandi það að við höfum aukið skattheimtu er ég honum ósammála. Varðandi tekjuskattinn höfum við notað þær reiknireglur sem áður voru notaðar varðandi persónuafslátt. Það var að vísu gagnrýnt af Alþýðusambandinu en það var sama reikniregla og hv. þm. notaði þegar hann var hæstv. fjmrh. Ég sé engan mun á því. Hann kann þó að eiga við breytingar á barnabótum og slíkum greiðslum. Ég lít ekki svo á að þær breytingar þýði skattahækkanir. Um það má í sjálfu sér endalaust deila reyndar eins og um þjónustugjöld sem vissulega er deilt um hvort eru skattar eða ekki. Mín skoðun er sú að á því sé verulegur eðlismunur hvort þar sé um skatt að ræða eða ekki.