Staða samkynhneigðs fólks

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 20:04:34 (7130)

     Frsm. félmn. (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. félmn. fékk til meðhöndlunar þáltill. um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Nefndin fjallaði um tillöguna og fékk um hana umsagnir frá bæjarstjórn Njarðvíkur, bæjarstjórn Akraness, landsnefnd um alnæmisvarnir, bæjarstjórn Borgarness, Sálfræðifélagi Íslands, Samtökunum '78, bæjarstjórn Ísafjarðar, biskupi Íslands, Rauða krossi Íslands, bæjarstjórn Mosfellsbæjar, bæjarstjórn Hafnar, Félagsmálastofnun Reykjavíkur, bæjarstjórn Keflavíkur, bæjarstjórn Selfoss og bæjarstjórn Akureyrar.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Undir þetta rita Rannveig Guðmundsdóttir, formaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Jónas Hallgrímsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Eggert Haukdal, Sigbjörn Gunnarsson og Einar K. Guðfinnsson.
    Brtt. sem nefndin gerir við tillögu til þál. um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki er á þá leið:
  ,,1. Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Nefndin skal skipuð fulltrúum dómsmrn., menntmrn., félmrn. og hagsmunasamtaka samkynhneigðs fólks. Skal nefndin kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu þess og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.
    2. Fyrirsögn till. orðist svo: Till. til þál. um skipun nefndar til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks.``