Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 22:21:27 (7141)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það mun hafa verið 27. mars sl., fyrir sex vikum eða svo, sem ég fylgdi þessum fríverslunarsamningi úr hlaði á hinu háa Alþingi. Þá talaði hér talsmaður Alþb. og lýsti afstöðu flokks síns til þessa samnings á þessa leið með leyfi forseta:
    ,,Það mál sem hann [þ.e. utanrrh.] talaði hér fyrir, till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja EFTA og lýðveldisins Tyrklands, er samningur sem mér finnst sjálfsagt að taka jákvætt. Alþb. er fyrir sitt leyti reiðubúið að greiða fyrir því að hann fái eðlilega athugun hér í þinginu og afgreiðslu fyrir vorið. Sjálfsagt er nauðsynlegt að skoða einstaka þætti í samningnum eins og að nokkru leyti var vikið að í framsöguræðu hæstv. utanrrh.
    Það er að mörgu leyti ánægjulegt að alþjóðleg viðskipti Íslendinga geti staðið traustum fótum sem víðast og þótt margt megi segja um stjórnarfar og efnahagsástand í Tyrklandi þá er nokkuð ljóst að ef þeim tekst að halda sæmilega utan um sín mál, þá gætu þeir á þessum áratug eða í byrjun næstu aldar orðið eitt af hinum öflugu drifhjólum í efnahagslífi ekki aðeins Evrópu heldur einnig veraldarinnar allrar og það er auðvitað mikilvægt að binda böndum ákveðið form viðskipta okkar við Tyrkland.``
    Talsmaður Alþb. í þessari umræðu var sami maðurinn og talaði hér áðan, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb. Ég hef satt að segja ekki heyrt mjög oft á þessum einstæða þingvetri þvílíka hrifningu eða jafnjákvætt hugarfar og jafnjákvæða afstöðu til stjórnarmáls eins og fram kom í þessari tilvitnuðu ræðu. Það eina sem þarfnast skýringa í þessu efni eru sinnaskipti hv. þm. og það er allt og sumt. Sinnaskiptin stafa af því að nú hentar honum í málþófsáráttu sinni á lokadögum þingsins að nota þetta mál til að þjóna þeirri lund sinni og það er allt og sumt.
    Því miður er það svo að höfnun Alþingis Íslendinga á þessum fríverslunarsamningi mundi ekki koma málstað Kúrda að neinu gagni og því miður ekki verða þess umkominn að leggja þeim neitt lið. Hins vegar værum við með því að hýða sjálfa okkur og hafna því að fylgja fram gömlu baráttumáli og hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar. Ég rifja það upp að þegar loksins eftir 19 ára viðleitni náðist sá árangur á frægum fundi fyrrv. forsrh., Steingríms Hermannssonar, í Ósló að ná fram grundvallarreglum um fríverslun með fisk innan EFTA þótti það þýðingarmikill áfangi í baráttu Íslendinga fyrir því að tryggja útflutningsvörum sínum jafnstöðu á mörkuðum í heiminum. Þessi fríverslunarsamningur við Tyrki er fyrsti samningurinn sem við höfum náð við ríki utan EFTA þar sem þessi grundvallarregla er viðurkennd. Við væntum okkur því góðs af þessu fordæmi í framtíðinni. Við höfum reyndar þegar uppskorið árangur sem m.a. birtist í því að þessi sama grundvallarregla hefur verið viðurkennd í fríverslunarsamningi sem þegar hefur verið undirritaður við Tékka og á smíðaborðinu eru viðlíka fríverslunarsamningar við hin nýfrjálsu ríki Mið- og Austur-Evrópu. Það þarfnaðist sérstakra skýringa af okkar hálfu í ljósi þess að við höfum notið stuðnings bandalagsþjóða okkar til að ná þessum sérhagsmunum Íslands fram ef Alþingi Íslendinga allt í einu sneri við blaðinu þegar þessi árangur hefði náðst og hafnaði því. Þá er hætt við því að raunsætt mat bendi til þess að við getum ekki vænst þess að aðrar þjóðir vilji eitthvað á sig leggja fyrir eða með okkur Íslendingum til að ná þessari grundvallarreglu fram, sem varðar ekki hagsmuni þeirra heldur hagsmuni okkar, ef það er svo niðurstaðan að Íslendingar vilja ekkert með það gera. Þetta varðar efnisatriði málsins. Um þetta er auðvitað enginn ágreiningur. Ræðuhöld um málstað Kúrda eru þessu máli óviðkomandi og hv. 8. þm. Reykn. bætir sig ekkert og eykur ekki spönn við hæð sína þótt hann noti þetta tilefni til þess að fara innfjálgum orðum um stuðning sinn við þann málstað eða einhverjum frýjuorðum órökstuddum um að stjórnvöld á Íslandi séu ófáanleg til þess að leggja baráttu Kúrda lið. Það er einfaldlega annað mál sem verður að taka upp á öðrum vettvangi.
    Að því er verðar þau orð sem hann lét falla um stjórnarfar í Tyrklandi svaraði hann þeim best sjálfur í þeirri ræðu sem hann flutti þegar málið var hér lagt fyrir 27. mars.
    Í raun og veru þarf ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þetta mál er sjálfsagt að samþykkja af hálfu Alþingis Íslendinga ef við leggjum á það eðlilegt mat. Ég mun ekki færast undan því að ræða málefni Kúrda á réttum vettvangi eða bera saman bækur mínar við aðra um það hvernig þeirra málstað verður lagt lið en um það verður ekki fjallað að gagni með þeim hætti sem hv. þm. gerði í ræðu sinni áðan.