Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 22:28:18 (7142)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð sorglegt að heyra aftur í dag og kvöld hvernig hæstv. utanrrh. er farinn að temja sér framkomu við okkur félaga sína í þinginu. Hann segir að erindi mitt hér upp sé eingöngu eitthvert málþóf á síðustu stundum þingsins. Hæstv. utanrrh., ég hef hvatt til þess undanfarnar vikur að þetta mál væri tekið til umræðu í tæka tíð áður en komið væri að lokum þingsins. Ég hef beðið um það með ýmsum hætti á undanförnum vikum að þessi umræða færi fram. Ég vildi láta hana fara fram strax í byrjun maí á eðlilegum fundartíma og án nokkurs þrýstings svo hægt væri að ljúka málinu þá, hæstv. utanrrh. En það er ráðherrann sjálfur og stjórnin, sem honum er tengd, sem hagar málinu þannig að það er fyrst þegar komið er á síðasta sólarhringinn að ráðherrann vill fara að tala um málið af því að þá telur hann sig hafa stöðu til þess að geta komið upp og sagt: málþóf --- í stað þess að koma með efnisleg rök.
    Það er alveg rétt, hæstv. ráðherra, að ég vék að verslunar- og viðskiptamöguleikum Íslands og Tyrklands þegar þetta mál bar fyrst á góma. En í þeim umræðum var einnig vikið rækilega að baráttu fyrir réttindum Kúrda og einmitt á þeim dögum sem þá voru að líða voru að eiga sér stað þær hryllilegu árásir sem urðu síðan tilefni til þess að innan Evrópubandalagsins í mars og byrjun aprílmánaðar var gripið til þeirra gagnráðstafana sem ég rakti hér.

    Það er ekki sæmandi, hæstv. utanrrh., að svara með þessum hætti. Það er sambærilegt við það sem ráðherrann hefur sagt við þjóð sína í kvöld að Ísland sé síðasta landið í EFTA sem fjallar um þennan samning. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef og komu frá utanrrn. sjálfu á fundi utanrmn. hefur Austurríki ekki enn staðfest þennan samning. Það væri fróðlegt að hæstv. utanrrh., sem sagt hefur þjóð sinni í kvöld að allir hafi staðfest þennan samning í EFTA nema við, upplýsi hvenær Austurríki staðfesti samninginn.