Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 22:30:53 (7143)

     Frsm. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli utanrrh. að það væri sjálfsagt að samþykkja þennan samning og ef við ekki gerðum það mundum við hitta okkur sjálf fyrir. Þetta er nú einfaldlega ekki rétt vegna þess að við munum ekkert finna fyrir því þótt við samþykkjum ekki þennan samning. Það skiptir Íslendinga nákvæmlega engu mái í efnahagslegu tilliti svo við höfum það á hreinu. Ef við lítum á útflutning Íslendinga til Tyrklands var hann árið 1989 132,9 millj. og árið 1990 161,2 millj. eða 0,17% af heildarvöruútflutningi Íslendinga. Það er því einfaldlega ekki rétt að það sé sjálfsagt og nauðsynlegt fyrir Íslendinga að samþykkja þennan samning. Það skiptir engu máli að öðru leyti en því að það skiptir máli fyrir hin EFTA-ríkin að Íslendingar hafi samflot við þau um þetta mál svo hægt sé að láta skrifstofu EFTA reka þennan samning og sjá um hann. Það er það eina sem skiptir máli í þessu.