Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 00:09:00 (7152)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegur forseti. Vissulega væri hægt að hafa mörg orð um vegáætlun, svo mikilvæg sem hún er fyrir hvert kjördæmi og atvinnulífið og uppbyggingu alla í byggðum landsins.
    Í fyrstu vil ég gera að umtalsefni það sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni, um samning sem gerður var milli Reykjavíkurborgar og fyrrv. fjmrh. um uppgjör skulda við Reykjavíkurborg. Vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. þm. vil ég segja að það kom aldrei annað til greina en að staðið yrði við þennan samning. Samningar sem gerðir eru af hálfu ríkisins, samningar við sveitarfélög sem undirritaðir eru af ráðherrum í ríkisstjórn hlýtur að verða að standa við. Það hefur verið hlutskipti þeirrar ríkisstjórnar og þess stjórnarmeirihluta sem nú er við völd að standa við samninga sem gerðir voru og reyna að hlutast til um að staðið væri við samninga sem hafði verið rift. Ég hef frá því fyrst var rætt um þennan samning sem gerður var lýst því yfir að ég teldi að það væri óhjákvæmilegt að standa við hann. Ég held að hv. þm. Guðni Ágústsson verði að gera sér grein fyrir því að hann ber ábyrgð á þessum samningi eins og aðrir þingmenn sem stóðu að þeirri ríkisstjórn sem ber ábyrgð á þessum samningi.
    Ég ætla ekki að lengja þær umræður sem hér fara fram eftir miðnætti um vegáætlun. Ég vil segja það eitt að vegáætlun skiptir mjög miklu máli. Það skiptir mjög miklu máli að það takist vel að nýta þá fjármuni sem við höfum til vegagerðar í landinu og það skiptir mjög miklu máli hvernig þeir skiptast. Í gildi eru fastar og ákveðnar reglur um skiptingu þessa fjármagns samkvæmt lögum. Unnið er að því núna að endurskoða vegalög og ég bind miklar vonir við að sú endurskoðun geti leitt til þess að framkvæmdir í vegamálum verði teknar eilítið öðrum tökum en gert hefur verið á undangengnum árum. Má þar m.a. nefna lögin hvað varðar framkvæmdir við þjóðvegi í þéttbýli sem hafa verið gerðir að umtalsefni.
    Eins og hefur komið fram hjá hv. þm. skiptir uppbyggingin í vegakerfinu miklu máli. Stjórnarflokkarnir hafa lagt á það ríka áherslu að tengja saman uppbyggingu vegakerfisins og styrkingu byggðanna uppbyggingu svokallaðra vaxtarsvæða sem væru tengd saman með öflugu vegakerfi. Að þessum málum þurfum við að hyggja og ég tel að við afgreiðslu vegáætlunar á næsta ári þurfi að taka tillit til þeirrar áætlunargerðar sem unnið er að á vegum Byggðastofnunar eftir ósk forsrh. sem hlýtur að taka verulegt tillit til þeirra áherslna sem við leggjum í byggðamálum. Ég vil ítreka og leggja áherslu á að samgöngumálin skipta miklu máli þegar lagðar eru línur um uppbyggingu byggðanna.
    Í þessari umræðu er ekki ástæða til að tíunda einstök mál, að því er ég tel, í kjördæmum. En þó hlýt ég að segja að Vesturland hefur nokkra sérstöðu vegna þess að vegasamgöngur skipta mjög miklu máli á Vesturlandi. Flugsamgöngur og samgöngur á sjó hafa ekki eins mikla þýðingu og í mörgum öðrum kjördæmum og þess vegna leggja þingmenn Vesturlandskjördæmis mikla áherslu á uppbyggingu vegakerfisins.
    Ég tel að við þurfum að leita allra leiða sem færar eru til að ná meira fjármagni til uppbyggingar vegakerfisins. Ég er sannfærður um að sú ríkisstjórn sem nú er við völd og sá stjórnarmeirihluti sem stendur að baki ríkisstjórnarinnar mun leggja vaxandi áherslu á uppbyggingu vegakerfisins og að því munum við stjórnarþingmennirnir vinna heils hugar.