Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 00:16:54 (7155)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að gera athugasemdir við ummæli, sem hv. 1. þm. Vesturl. lét falla, og sem ég kunni ekki allskostar við. Það var þegar hann fjallaði um stjórnarþingmenn í sambandi við umræður um vegamál eins og alveg sérstakan þjóðflokk og endurtók oftar en einu sinni að stjórnarþingmenn hefðu hug á að gera þetta eða standa svona að hinu o.s.frv. Mér finnst þetta koma úr hörðustu átt því þannig vill til að hv. þm. var sem bæjarstjóri í Stykkishólmi m.a. fulltrúi Sjálfstfl. í nefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka til að endurskoða langtímaáætlun síðast þegar ráðist var í slíka vinnu. Þá var sá andi að leitað var eftir tilnefningum frá öllum flokkum í endurskoðunarvinnu af því tagi. Sjálfstfl. var þannig sinnaður í stjórnarandstöðu fyrir einu og hálfu til tveimur árum síðan að honum nægði ekki einn fulltrúi eins og öðrum flokkum. Nei, hann varð að fá tvo til að þetta væri allt saman nógu lýðræðislegt og gott. Þannig var andrúmsloftið í Sjálfstfl. á þeim tíma að þeir gerðu kröfur um og fengu tvo fulltrúa á móti einum frá öðrum þingflokkum í hverri samráðsnefndinni á fætur annarri af þessu tagi. Hv. 1. þm. Vesturl. sat m.a. í slíkri nefnd sem ég skipaði á sínum tíma. Þess vegna fundust mér óþörf þessi ummæli um stjórnarþingmennina sem sérstakan þjóðflokk í þessum efnum nema það sé bjargföst ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að leita alls ekki eftir neinu samráði eða samstarfi um þessi mál. Og þá er náttúrlega að taka því.
    Hér nefndi hv. 1. þm. Vesturl. t.d. endurskoðun vegalaga sem hafin væri. Ég tel að það sé brot á samráðshefðum um þessi mál ef nefnd er skipuð í það með pólitískum fulltrúum að þeir komi ekki frá öllum þingflokkum. Það hefur verið hefð við vinnu af þessu tagi þegar stefnumörkun eða nefndarstörf á sviði meiri háttar vegamála hefur verið á ferðinni að óska eftir fulltrúum úr öllum flokkum. Það er auðvitað Sjálfstfl. til skammar ef hann ætlar að rjúfa þessa hefð.