Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 00:48:49 (7163)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur milli hæstv. núv. forsrh. og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar hæstv. fyrrv. fjmrh. um það hverjum beri eða hafi borið að leita eftir samþykki fjárveitinganefndar eða fjárln. núv. á því samkomulagi sem er til umræðu. Ég ætla fyrst og fremst að fjalla örlítið um það samkomulag og meðhöndlun þess þó margt annað mætti reyndar segja um þá vegáætlun sem er til umræðu í hv. þingi.
    Ég er sammála hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og raunar staðfesti hæstv. fjmrh. það áðan í sinni ræðu að auðvitað bar að halda áfram því verkefni að fá samþykki fjárveitinganefndar eða fjárln. á þessu samkomulagi. Það gat ekkert fallið niður með ríkisstjórnarskiptum eða fjármálaráðherraskiptum, það er alveg fráleitt. Auðvitað hlaut það þá að vera í verkahring hæstv. núv. fjmrh. að ná því fram eða framfylgja þeim þætti þeirrar heimildargreinar í 6. gr., sem vitnað hefur verið til og lesið upp, um að það bæri að leita eftir ekki bara samráði við fjárln. heldur samþykki nefndarinnar á málinu. Það var ekki gert. Og án þess, eins og ég sagði í upphafi, að ég blandi mér neitt í þessar deilur sem kunna að vera á milli þessara tveggja ágætu þingmanna, núv. hæstv. fjmrh. og fyrrv. fjmrh., fannst mér kannski aðeins liggja í orðum hæstv. forsrh. að hann væri að beina því að hæstv. núv. fjmrh. að hann hefði ekki fylgt eftir þessu verkefni sem honum bar fyrst það var ekki búið á þeim fáu vikum sem fyrrv. fjmrh. sat í embætti frá því að samkomulagið var undirritað 3. apríl og þar til ný ríkisstjórn tekur við 30. apríl.
    En menn greinir ofurlítið á um það hvernig beri að skilja eða skilgreina þetta mál nú þegar svo langt er um liðið frá því að þetta samkomulag var gert og að í dag er engin heimild til í fjárlögum til að beina málinu til fjárln. og því e.t.v. rétt það sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að samkomulagið verði í raun að berast undir þingið sjálft til endanlegrar staðfestingar. Ég tel að þó svo um þetta hafi verið getið í greinargerð fjárlagafrv. fyrir þetta ár þegar það var til meðhöndlunar hjá fjárln. þá geti það engan veginn fallið undir það að skoðast sem samþykki nefndarinnar á þessu samkomulagi sem skýrt er kveðið á um að hafi átt að leita.
    Í samkomulaginu, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. undirritaði ásamt þáv. borgarstjóra, kemur greinilega fram að þetta samkomulag er gert með vísan til heimildargreinar 6.7. í fjárlögum fyrir árið 1991 og hæstv. forsrh. staðfesti það í ræðu sinni áðan að honum var fullkunnugt um það og jafnframt um það að þessa samkomulags hafi ekki verið leitað á þeim tíma þegar málið eða samningurinn er undirritaður. Þannig að ég tel að út af fyrir sig sé þetta samkomulag með þeim vanköntum eða annmörkum gert að það skuli ekki koma fram í því fyrirvari annaðhvort að samkomulagsins við fjárveitinganefnd hafi verið leitað áður en það var undirritað eða að fyrirvari kæmi fram í samkomulaginu sjálfu að það þyrfti að leggjast fyrir þáv. fjárveitinganefnd til staðfestingar. Þetta var því miður ekki gert og hlýtur að vekja upp spurningar um gildi samkomulagsins svo lengi sem það verður ekki staðfest, fyrst það var ekki staðfest af fjárln. fyrir áramót, þá formlega af þinginu sjálfu í dag.
    Til þess að liggja ekki undir því af hálfu núv. fjárln. að hafa tekið einhverja óformlega afstöðu til málsins af því að þögn sé sama og samþykki í þessu máli þá fórum við fram á það nokkrir fjárlaganefndarmenn að nefndin léti frá sér fara bókun um málið eða tæki málið til meðferðar og léti frá sér fara bókun um það. Og ég vil líka benda á það og minna á það hér að málið hefur aldrei verið sent henni og formlega því ekki þar til umfjöllunar. Það segir í þessari margtilvitnuðu grein að það er fjmrh. sem hefur heimild til að semja við sveitarfélög með yfir 10.000 íbúa. Það er fjmrh. sem hefur þessa heimild og það er auðvitað hans að fylgja því eftir að nauðsynlegrar staðfestingar sé leitað hjá nefndinni. Það var ekki gert. Og á meðan það er ekki gert af hans hálfu, á meðan málið kemur ekki frá hæstv. fjmrh. eða fjmrn. til nefndarinnar þá tekur nefndin það auðvitað ekki upp sjálf vegna þess að þeir hv. þm., sem sitja á hverjum tíma í fjárln., vita auðvitað ekki hvaða samningar eru í gangi upp í fjmrn., hvaða samninga hæstv. fjmrh. kann að vera að gera við þessi stærstu sveitarfélög. Það verður að ætlast til þess að málið komi með formlegum hætti til nefndarinnar. Það hefur sem sagt aldrei gerst og því varð það niðurstaða á fundi fjárln. í gær að semja eða gera svofellda bókun sem mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp og var hún síðan send hæstv. fjmrh. Friðriki Sophussyni með í bréfi, dags. 18. maí. Bréfið hljóðar svo:
    ,,Hér með sendir fjárln. svofellda bókun sem gerð var á fundi nefndarinnar í dag vegna umræðna og yfirlýsinga um samkomulag fyrrv. fjmrh. við Reykjavíkurborg sem gert var 3. apríl 1991.
    1. Samkomulagið er gert samkvæmt heimild í lið 6.7. í 6. gr. fjárlaga 1991. Þar er heimild ráðherra bundin því skilyrði að fjárveitinganefnd samþykki þær skuldbindingar sem gerðar kunna að verða.
    2. Ekki var farið fram á það við þáv. fjárveitinganefnd né síðar við fjárln. að samþykkja eða staðfesta samkomulagið.
    3. Fjárln. telur það skyldu fjmrh. að fylgja lagaskilmálum við gerð samkomulags sem kveður á um útgjöld af hálfu ríkisins. Því miður var það ekki gert í þessu tilviki.``
    Undir þetta er síðan ritað af hv. varaformanni fjárln., Pálma Jónssyni, fyrir hönd fjárln. í fjarveru formannsins.
    Það má kannski segja að það sé óþarfi að taka fram að það sé skylda fjmrh. að fylgja lagaákvæðum. En það var kannski rétt að árétta það í þessu bréfi þar sem þeirri skyldu hafði ekki verið framfylgt og málið þess vegna í því uppnámi getum við kannski sagt sem það reyndar virðist vera í enn í dag.
    Að lokum langar mig svo, virðulegur forseti, aðeins að nefna það í sambandi við þær fjárveitingar sem eru nú í vegáætluninni til vegaframkvæmda og það framkvæmdafé sem þar er til afgreiðslu nú í þinginu að í samkomulaginu milli fjrmrn. og Reykjavíkurborgar er í fyrsta lagi kveðið á um að þeir fjármunir, sem gerður er samningur eða samkomulag um, skuli greiðast af framlagi af vegafé til framkvæmda við þjóðvegi í Reykjavík á næstu tveimur tímabilum vegáætlunarinnar. Það er ekkert tekið fram um það,

af því að það kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. áðan, að það væri kveðið á um að það skyldi ekki skerða framkvæmdafé Reykjavíkurborgar, ef ég skildi hann rétt í máli hans áðan, hv. þm. situr nú reyndar hér í forsetastóli, en ég sé ekki að það sé tekið sérstaklega fram --- það er aðeins rætt í samkomulaginu að þetta skuli greitt af framlagi af vegafé til framkvæmda við þjóðvegi í Reykjavík það segir ekki að það skuli ekki skerða framkvæmdafé þar. Síðan segir í síðustu málsgrein þessa ágæta margumrædda samkomulags, með leyfi forseta: ,,Samkomulag þetta er gert með vísan til heimildargreinar 6.7. í fjárlögum fyrir árið 1991 og ráðuneytið mun beita sér fyrir því að greiðsla á uppgjörsfé verði ekki til skerðingar á framkvæmdafé.`` Ég verð að líta svo á að þetta sé almennt um framkvæmdafé sem er á vegáætluninni og það eigi þá auðvitað ekki að skerða það framkvæmdafé sem á að ganga til annarra kjördæma. Ég held þess vegna að ef málið hefði komið til umræðu í fyrrv. fjárveitinganefnd eða núv. fjárln. hefði verið hugað að því hvernig hægt væri að standa við þetta samkomulag. Og fyrst ríkisstjórnin telur sér skylt að standa við samkomulagið, sem ég dreg reyndar ekki í efa að hafi sitt fulla gildi og beri að standa við, þá held ég að það hefði líka átt að standa við það ákvæði samningsins að þetta margumrædda samkomulag skerði ekki það framkvæmdafé sem vegáætlunin gerir að öðru leyti ráð fyrir. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki hafi verið staðið við það eins og fram hefur komið hjá hv. þm. sem hafa margítrekað að samkomulagið skerðir fjárveitingar til annarra kjördæma, m.a. vegna þess að í vegáætluninni eru framlög til Reykjavíkurborgar fyrir árin 1991 og 1992 ekki jafnhá og samningurinn eða samkomulagið gerir ráð fyrir og munar þar 89 millj. kr. eins og reyndar hefur líka komið fram hjá öðrum hv. þm. og það er auðvitað sú skerðing sem bitnar á öðrum kjördæmum.