Endurgreiðsla virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 01:22:51 (7171)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Nefndin hefur fjallað um þessa till. til þál. um endurgreiðslur virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna. Umsagnir bárust frá Kaupmannasamtökunum, Verslunarráði Íslands og Sambandi veitinga- og gistihúsa.
    Í þeim umsögnum sem bárust er mælt með endurskoðun reglna um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Við þá endurskoðun þarf að hafa ríkt samráð við alla hagsmunaaðila en meginmarkmið hennar er að mati nefndarinnar að efla íslenska ferðaþjónustu og viðskipti við erlenda ferðamenn.
    Nefndin telur rétt að einfalda tillgr. nokkuð og leggur til að hún verði samþykkt þannig orðuð:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að láta endurskoða reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna og framkvæmd hennar.``
    Undir þetta nál. rita allir nefndarmenn í efh.- og viðskn. en þeir eru auk mín Rannveig Guðmundsdóttir, Halldór Ásgrímsson, Vilhjálmur Egilsson, Steingrímur J. Sigfússon, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Ingi Björn Albertsson og Árni M. Mathiesen.