Viðlagatrygging Íslands

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:12:07 (7177)

     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Við fyrri umræður um þetta mál höfum við lagt á það áherslu að málatilbúnaður allur í þessum efnum sé heldur gallaður varðandi frv. um Viðlagatryggingu, fyrst og fremst vegna þess að hér er ekki um heildarendurskoðun að ræða og fjárhagslegar forsendur liggja ekki fyrir. En það versta í málinu er þó það að ríkisstjórnin hefur kosið að hundsa sjónarmið sveitarfélaganna svo að segja alveg. Ég tel ástæðu til að ítreka þetta sjónarmið við lokameðferð málsins þannig að það liggi þó alla vega fyrir að það hafi verið reynt til síðustu stundar að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina í þessu efni. Ég tel skynsamlegast að láta málið liggja en auðvitað hlýtur meiri hluti ríkisstjórnarinnar að ráða því í meginatriðum hvaða mál það eru sem hljóta endanlega afgreiðslu á þessu þingi.