Fullorðinsfræðsla

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:13:10 (7178)

     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. menntmn. um frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu á þskj. 1039 og brtt. á þskj. 1040.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk um það umsagnir frá Kennarasambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Iðntæknistofnun, Hinu íslenska kennarafélagi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Vinnumálasambandi samvinnufélaga.
    Þá fékk nefndin á sinn fundi til viðræðna um málið Guðnýju Helgadóttur, deildarstjóra fullorðinsfræðslu í menntmrn., og Karl Kristjánsson, deildarsérfræðing í sama ráðuneyti.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Meginbreyting nefndarinnar varðar ákvæði 3. gr. frv. um fullorðinsfræðsluráð. Í frv. er gert ráð fyrir að skipan ráðsins sé ákveðin í reglugerð. Nefndin telur hins vegar heppilegra að skipan þess sé tilgreind í lögunum og flytur um það tillögu. Þá er gerð breyting á endurskoðunarákvæði frv. og lagt til að lögin verði endurskoðuð eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þeirra en í frv. er miðað við fjögur ár. Einnig gerir nefndin breytingu á 9. gr. til að taka af öll tvímæli um efni hennar. Að lokum er lagfærð tilvísun í 6. gr. frv. og orðalagsbreyting gerð á 14. gr. þess.
    Tómas Ingi Olrich og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Nefndarmenn mæla eindregið með samþykkt frv. Undir það skrifa Sigríður A. Þórðardóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Árni Johnsen, Kristín Ástgeirsdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Björn Bjarnason.