Kosning í menntamálaráð

154. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:42:20 (7189)

     Kristín Ástgeirsdóttir :

    Virðulegi forseti. Það getur engum blandast hugur um það hvað hér er á ferðinni. Alþingi kýs menntamálaráð og þeir fulltrúar voru kjörnir sl. vor. Í menntamálaráði hafa verið að gerast atburðir sem menn draga í efa að standist lög. Þeir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem þar sitja, leituðu til umboðsmanns Alþingis og hann komst að þeirri niðurstöðu að a.m.k. í einu atriði hefðu verið brotin lög í starfi menntamálaráðs og formaður þess farið langt út fyrir sitt verksvið. Það kom fram í ummælum hæstv. menntmrh. í útvarpinu þegar formannsskiptin áttu sér stað að skilningur hans á lögum um menntamálaráð og fjárlögum var harla skrítinn og segir Sigurður Líndal lagaprófessor í þeirri grein, sem áður hefur verið vitnað til, að hann sé varla enn þá búinn að jafna sig eftir þau ummæli sem hæstv. menntmrh. lét út úr sér, löglærður maðurinn. Og það er alveg ljóst að Alþingi ber ábyrgð á menntamálaráði. Það kýs menntamálaráð og þess vegna er full ástæða til að kanna hvað þar er að gerast. Það er alveg greinilegt að það á að hnekkja hinum nýja meiri hluta. Ég veit ekki hver það er sem ætlar að taka að sér það verk að gerast þarna aðalfulltrúi. Mér finnst það ekki sérlega hrósvert að taka við því.
    Mér finnst það vera hlutverk Alþingis að skoða hvað er að gerast þarna. Hvað er verið að gera í þessu ráði gegn gildandi lögum? Fjárlög eru ekki æðri öðrum lögum. 6. gr. og heimildin sem þar er er ekki æðri öðrum lögum sem gilda í landinu og þeim lögum sem gilda um menntamálaráð.
    Þess vegna held ég, hæstv. forseti, að það sé verkefni hæstv. menntmn. að taka þetta mál til athugunar og það beri að fresta þessum kosningum. Það er öllum til góðs að þeim verði frestað til hausts og að hæstv. ríkisstjórn kynni sér í fyrsta lagi hvað hefur verið að gerast í menntamálaráði og hvað hinn nýi meiri hluti vill gera því það veitir ekkert af bókaútgáfu sem stendur fyrir útgáfu merkra bóka í samvinnu við háskólastofnanir en því samstarfi hefur nú verið rift.