Kosning í menntamálaráð

154. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:45:04 (7190)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum síðan gekk Alþfl. þá götu að taka jafnaðarhugsjónina burtu úr lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Og nú er Alþfl. að leggja upp í þá göngu að taka lýðræðishugsjónina burtu úr því fulltrúakerfi sem flokkurinn hefur valið sér.
    Það var hópur manna fyrir nokkrum árum, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem gaf sjálfum sér heitið lýðræðiskynslóðin. ( ÖS: Það varst þú sem gafst hana.) Hv. þm. segir að ég eigi þá nafngift og ég skal alveg kannast við það ef þingmaðurinn vill halda því fram. Það er heiður að eiga þá nafngift vegna þess að sá hópur manna ætlaði sér ákveðna hluti í íslenskum stjórnmálum, hann ætlaði sér endurnýjun, hann ætlaði sér breytingar, hann ætlaði sér nýja tegund af flokksstarfi og umgengnisháttum á þjóðmálavettvangi. Þessi hópur, sem ætíð og oft notaði heitið lýðræðiskynslóðin um sjálfan sig, trúði því að innan Alþfl. væri að finna vinnubrögð og starfshætti ( ÖS: Þú kenndir okkur það á rauðu ljósi, manstu.) þar sem sá hugsunarháttur væri við lýði og hv. þm. segir með trega í röddu í dyrunum: ,,þú kenndir okkur það á rauðu ljósi`` og það er rétt. Ég kenndi þá lexíu á rauðu ljósi, ég hafði með mér annan mann ( ÖS: Ámunda.) Það má vel vera að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi komist að því af veru sinni í Alþfl. að hinn raunverulegi Jón Baldvin Hannibalsson sé Ámundi Ámundason. En ég hélt að hinn raunverulegi Jón Baldvin Hannibalsson væri eitthvað í veruleikanum, ekki bara leikbrúða í höndunum á Ámunda Ámundasyni. Hins vegar má það vel vera að það sé það sem hv. þm. hefur kynnst innan Alþfl. Það eru hans orð en ekki mín.
    Ég var, það er rétt, með hæstv. utanrrh. á fundum sem báru þessa nafngift, þar sem við fluttum þessu unga fólki hugsjónirnar um lýðræði og um jafnaðarstefnuna, um nýja starfshætti í íslenskum stjórnmálum, um kerfi þar sem fólk fengi að vera sjálfstætt og óháð flokkslegu valdi. ( GHelg: Við fórum yfir á grænu ljósi.) Og ég trúi því ekki fyrr en ég sé það gerast hér í þingsalnum að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætli virkilega, án mótmæla, að láta það gerast hér í nótt að einum úr þessari sveit lýðræðiskynslóðarinnar, sem trúði því að innan Alþfl. væri að finna ný vinnubrögð, verði með þeim flokkslega hroka, sem hæstv. utanrrh. sýndi áðan, hent út úr menntamálaráði fyrir það eitt að hlýðnast ekki skipunum flokksforustu Sjálfstfl. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það gerast hér í þingsalnum að þingmaðurinn ætli að sitja þegjandi og láta það gerast.