Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

154. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:50:45 (7191)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hér er gerð tilraun til að fá Alþingi Íslendinga til að lýsa yfir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Kúrda, til þess að fordæma ofsóknir stjórnvalda í Tyrklandi gagnvart Kúrdum, til þess að Alþingi árétti þá stefnu sína að smáríki og þjóðarbrot eigi að njóta sjálfsákvörðunarréttar, til þess að lýsa þeirri skoðun að áður en samningur um fríverslun verður staðfestur þá sendi íslensk stjórnvöld sérstakan fulltrúa til að flytja Kúrdum og tyrkneskum stjónvöldum þennan boðskap.
    Það er leitt ef það er virkilega þannig að ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi ætlar að beita sér gegn slíku. Það kemur þá í ljós í þessari atkvæðagreiðslu. Við höfum lýst vilja okkar til þess að ná samkomulagi um það hér á Alþingi. Ef það tekst ekki þá er því miður rofinn í fyrsta sinn sá eindregni einhugur sem skapaðist fyrir tveimur eða þremur árum þegar Alþingi fyrst lýsti yfir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna og síðan við sjálfstæðisbaráttu þeirra sem áður byggðu ríkið Júgóslavíu.