Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það eru örfá orð. Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hæstv. heilbrrh. Þessi umræða er á marga lund dálítið sérstök og lýsir kannski nýjum vinnubrögðum hv. stjórnarandstöðuþingmanna, málefnalegum umræðum. Mig langar til að benda á að í þessari umræðu hefur komið fram að hv. starfandi formaður þingflokks sjálfstæðismanna hefur tjáð þingheimi að hæstv. menntmrh. vilji láta þessa kosningu fara fram. Hann hefur ekki beðið um frest. Hann er tilbúinn til að láta þessar kosningar fara fram. Þá koma hér upp annars vegar formaður Alþb., hins vegar formaður þingflokks Framsfl. og segja: Við tökum ekki mark á þessu, við viljum fá að heyra þetta frá hæstv. ráðherra sjálfum. Ég veit ekki hvort það eigi að draga lærdóm af því sem hér er sagt, en sé svo, þá eru þessir tveir ágætu menn að segja við okkur hér: Það á ekki að taka mark á formönnum flokka. Það á ekki að taka mark á formönnum þingflokka þegar þeir bera boð innan úr þeirra þingflokkum. Ef það eru þau nýju vinnubrögð sem á að taka upp, þá bið ég þessa ágætu hv. þingmenn að huga vel að því hvort þeir vilja að slík vinnubrögð verði tekin upp hér á þingi, að það verði ekki tekið mark á orðum hv. 8. þm.

Reykn. þegar hann talar fyrir hönd Alþb. né heldur hv. 1. þm. Norðurl. v. þegar hann mælir fyrir hönd þingflokks Framsfl.
    Svo kann að fara að innan tíðar þurfi að kjósa í nefndir og ráð, t.d. bankaráð. Það hagar þannig til í bankaráði Landsbankans að stjórnarmeirihlutinn á þingi hefur minni hluta í bankaráði. Ef menn vilja taka upp ný vinnubrögð og láta kosningar í eiginlegri merkingu fara fram þegar menn falla frá, forfallast af einhverjum ástæðum eða segja af sér, þá er það nýlunda. Ég hef ekki heyrt að hv. stjórnarandstæðingar hafi farið fram á það. Ég hef ekki heyrt það. En ég vek athygli á því að svo er ekki til að dreifa í þessu máli. Hér er farið að mjög gamalli venju þar sem einn þingflokkanna tilnefnir auðvitað menn í stað þeirra sem þar voru að störfum. Það hefur oft verið gert. T.d. sagði hv. þm. Svavar Gestsson af sér þegar hann sat í stjórnarnefnd ríkisspítala. Annar var kjörinn umsvifalaust í hans stað. En það eru til dæmi um það að menn hafa sagt af sér vegna þess að þeir töldu sig ekki hafa trúnað við flokksforustu og ef hv. 8. þm. Reykn. má vera að því að hlusta, þá vil ég rifja upp eitt dæmi sem er hvað þekktast.
    Margrét Björnsdóttir var fulltrúi Alþb. í Þróunarsamvinnustofnun. Hún sagði af sér vegna þess að hún taldi að það væri ekki trúnaður lengur á milli hennar og (Gripið fram í.), ekki á þeim tíma, og formanns Alþb. Það var auðvitað umsvifalaust skipt um mann og kosin var í hennar stað Ingunn Anna Jónasdóttir hinn 12. okt. í fyrra. Það hreyfði enginn andmælum, enda farið að venju.
    Ég minni á þetta vegna þess að þetta afhjúpar málflutning stjórnarandstæðinga og sýnir að hér er aðeins verið að reyna að ýfa upp mál innan Sjálfstfl. Það tekst ekki því að innan þess flokks eru menn fyllilega sammála um það hvernig standa ber að þessu kjöri og ég vil taka undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað og bent á að ef breyting verður á, þá sé um að ræða algjöra nýlundu þingsögunni.