Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég veit það eins og aðrir alþingismenn að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson datt úr ráðherrastól ekki alls fyrir löngu. En ég vissi það ekki fyrr en nú að hann hefði komið svona illa niður því það er bæði auðsætt og auðheyranlegt að hann er enn þá mjög særður og finnur afskaplega mikið til. Ég vildi bara óska eftir því að hv. þm. leitaði leiða til þess að fá lyfjaskírteini svo að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af fjárhag sínum þó að hann þyrfti að leita sér læknishjálpar út af þessu mikla áfalli sem hann varð fyrir. En hins vegar er meinlaust gaman að sumu sem ráðherrann fyrrv. segir. Það er enginn trúnaðarbrestur, segir hann, við formann í stjórnmálaflokki þó maður segi sig úr flokknum. Það er ekki trúnaðarbrestur. Það er ekki trúnaðarbrestur milli manns í trúnaðarstöðu fyrir flokk og formannsins þó maðurinn í trúnaðarstöðunni segi sig úr flokknum. Hvernig er hægt að staðfesta trúnaðarbrestinn milli forustu og flokksmanns með rækilegri hætti en að segja sig úr flokknum?
    Hvar er bréfið, spyr hv. þm., hvar er bréfið sem Þröstur Ólafsson skrifaði þegar hann sig úr Alþb. og sagði af sér trúnaðarstöðunni í þess þágu? Hann er búinn að gleyma því líka. Það er ekki í þinginu. ( ÓRG: Jú.) Nei, nei, nei. Það er í hans eigin fórum vegna

þess að Þröstur Ólafsson skrifaði honum sjálfum. Og ég ætla að minna hv. þm. á það að það var ekki að ástæðulausu sem það sat ekkert bankaráð í Seðlabankanum í þrjár vikur. Umboð bankaráðs Seðlabankans féll niður um mánaðamótin október/nóvember. Það var búið að ákveða að kjósa í bankaráðið áður en umboð starfandi bankaráðs félli niður. Rétt áður en átti að ganga til þeirra kosninga tilkynnti Þröstur Ólafsson, sem búið var að ræða við að yrði áfram fulltrúi Alþb. í því ráði, að hann gæfi ekki kost á sér. Hv. formaður Alþb. óskaði þá eftir því að kosningum yrði frestað og á það var fallist. Þeim var frestað það lengi að kosningarnar fóru ekki fram fyrr en 28. nóv. og var Seðlabankinn þá búinn að vera stjórnunarlaus 28 daga. Ekkert bankaráð yfir Seðlabankanum. Jóhannes ríkti einn ásamt sínum kollegum. Það var ekki ástæðulaust. (Gripið fram í). Auðvitað var hann ánægður með það. Ástæðan var sú að það hafði orðið trúnaðarbrestur á milli formanns Alþb. og þess fulltrúa sem Alþb. átti í stjórn Seðlabankans sem hafði sagt af sér og sagt sig úr flokknum. Og hvernig lýsa menn betur trúnaðarbresti en með því að segja sig úr flokki? Og út á þetta sat ekkert bankaráð yfir Seðlabankanum í 28 daga.
    Ég trúi því ekki að þegar hv. þm. datt úr ráðherrastólnum hafi hann komið svo illa niður að hann hafi gleymt þessu líka.